25.07.1917
Neðri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (2727)

87. mál, sala á ráðherrabústaðnum

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg verð að vera þeirrar skoðunar, að landið þurfi að eiga hús handa þeim ráðherranum, sem á að halda uppi risnu, þótt ekki sje mikið fje til þess ætlað. Það stóð alveg sjerstaklega á fyrir mjer, að jeg flutti ekki, en það er ekki víst, að altaf standi svo á fyrir forsætisráðherranum, að hann hafi hús, sem jafngildi ráðherrabústaðnum.

Jeg get hugsað mjer, að það valdi óánægju hv. flutnm. (S. S.), að ráðherrabústaðurinn er úr timbri, í stað þess að vera úr steini, því að rjettu lagi ættu öll opinber hús að vera úr steini. Ef hv. flm. (S. S.) hefði farið fram á það að reisa ráðherrabústað úr steini, en selja þetta hús, þá hefði jeg getað sætt mig við frv., en jeg álít ekki rjett að selja þetta hús áður en hitt væri komið upp.

Yfirleitt held jeg, að oflítið sje gert að því, að landið láti embættismenn hafa fasta embættisbústaði. Þeir verða að hafa jafnvel opinberar skrifstofur í einkahúsum. Þetta mun hvergi eiga sjer stað nema hjer, og er það mjög óheppilegt, líka fyrir almenning. Því síður álít jeg rjett að sleppa þessum eina embættisbústað.