25.07.1917
Neðri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í C-deild Alþingistíðinda. (2728)

87. mál, sala á ráðherrabústaðnum

Einar Jónsson:

Jeg er samþykkur orðum hæstv. forsætisráðherra. Landið þarf að eiga bústaði handa embættismönnum sínum, líkt og víða er nú um lækna og sýslumenn, að þeir hafa fasta bústaði. Þess vegna er það rjett, að þótt núverandi forsætisráðherra eigi sæmilegt hús, að selja samt eigi ráðherrabústaðinn, því að ekki er víst, að þeir, sem síðar koma, eigi fullboðleg hús. Þess vegna vil jeg ekki selja húsið nú, enda þótt jeg telji tryggara að geyma ráðherrana í „steininum“, svo að þeir brenni ekki! En að ætla sjer, eins og nú standa sakir, að leggja út í steinhússbyggingu, en að færa úr eigu landsins það húsið sem til er, tel jeg mjög óráðlegt.