04.08.1917
Neðri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í C-deild Alþingistíðinda. (2737)

87. mál, sala á ráðherrabústaðnum

Frsm. (Þorsteinn Jónsson):

Jeg heyri, að svo vel vill til, að hv. flm. (S. S.) er ekki einn á báti, heldur fylgir honum hv. 2. þm. S.-M. (B. St.). Aðalrökin í ræðu hans voru, að landið mundi ekki lenda í neinum vandræðum, þótt einhvern tíma færi svo, að forsætisráðherra hafi engan bústað. Þá yrði hægt að fá húsnæði leigt handa honum. Jeg efa ekki, að hægt yrði að fá leigðar einhverjar kompur handa forsætisráðherranum. En nú lít jeg svo á, jeg býst við fleiri, að ekki sje annað sæmandi en að forsætisráðherra landsins fái svo góðan bústað, að sæmilegur sje æðsta embættismanni landsins. En lítil líkindi eru til að fá á leigu svo gott húsnæði, ef hann ætti það ekki sjálfur af tilviljun. (S. S : Það verður búið að byggja þegar hv. frsm. (Þorst. J.) verður forsætisráðherra). Jeg heyri, að nú er kominn örvæntingartónn í ræðu hv. 1. þm. Árn. (S. S.). Hann hefir sjálfsagt litla von um það nú orðið að verða nokkur tíma kallaður „hæstv.“, en hefir hins vegar auðsjáanlega verið allþungt haldinn um stundarsakir af þeim leiða kvilla, sem kallaður er „ráðherrann í maganum“. Það gleður mig, að hann hefir nú hlotið bót þessa meins.