15.08.1917
Neðri deild: 34. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

4. mál, samþykkt á landsreikningum 1914 og 1915

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) taldi ekki nóg að snúa sjer til stjórnarráðsins til að fá upplýsingar um landsreikningana. En jeg veit ekki, hvert annað væri sjálfsagðara að fara. Sami þm. mintist á fjárveitinguna til Hvanneyrarskólans. Það atriði skiftir ekki miklu máli. Tilgangur skólastjóra mun vera sá að eyða ekki meiru fje en veitt var alls til skólans. En auðvitað hefði hitt verið formlega rjettara að verja því, sem veitt var til verklegs náms, til þess, sem það var ætlað, og leita svo aukafjárveitingar til þeirra liða, sem fóru fram úr áætlun.

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) hjelt langa ræðu, bygða á miklum misskilningi, enda er hann ekki nógu kunnugur þessu máli. Fyrst skildi hann ekki, hvernig það getur átt sjer stað, að póstávísanaviðskiftin við Danmörku löguðust eða aflöguðust af sjálfu sjer. Þetta er þó ofboð auðskilið. Hvernig getur þm. t. d. haldið, að póstávísanaviðskifti Íslands og Danmerkur standi í járnum 31. desbr. ár hvert? Það er sem sje auðsætt, að þegar bæði vjer og Danir gerum reikning, miðaðan við sama daginn, er það hrein tilviljun, ef sama upphæð kemur fram hjá báðum, vegna þess, að bæði hjer og í Danmörku hafa verið borgaðar út

og inn póstávísanir, sem ekki eru komnar til inn- eða útborgunar í hinu ríkinu. Þetta kemur alt fram á sínum tíma. Það er því hárrjett að segja, að viðskifti þessi lagist og aflagist af sjálfu sjer.

Í öðru lagi talaði þingm. (J. B.) mikið um frímerkjabirgðirnar. Jeg veit ekki, hvort hann hefir tekið eftir tillögum nefndarinnar um þetta, en, að því er jeg best gat skilið hann, þá uppfylla þær óskir hans.

Háttv. þm. (J. B.) er sýnilega ókunnugt um, að allar frímerkjabirgðir eru geymdar í lokuðum skáp í stjórnarráðinu, og ekkert afhent póstmeistara nema gegn kvittun, og þessar kvittanir sýna, hversu miklu fje hann eigi að standa landssjóði skil á. Altaf er hægt að sjá af prentunarkostnaðarreikningunum, hve mikið af frímerkjum hefir verið prentað, og með því að bera saman þessa reikninga og kvittanir póstmeistara er altaf hægt að sjá, hve mikið er til af frímerkjum óeytt, svo að enginn getur dregið sjer neitt af þeim.

Sami háttv. þm. (J. B.) kvartaði yfir, að ekki væri hægt að fá neinn botn í landsreikningunum, þegar ókunnugt væri um frímerkjabirgðirnar. En þær koma landsreikningunum ekkert við. Eða vill þm. reikna óseld frímerki sem peninga? Um það er mjer kunnugt, að hætt er að afhenda gömul frímerki í stjórnarráðinu. Þau eru geymd í sama skáp í stjórnarráðinu og önnur frímerki.

Þá er athugasemdin við símatekjurnar. Í nál. segir, að skýrslu yfirskoðunarmanna og stjórnarinnar beri ekki saman. Og vegna þessa leitaði jeg mjer, sem framsögumaður, upplýsinga um, hvort rjettara væri, og fjekk ábyggilega vissu um, að stjórnin hefir hjer á rjettu að standa. Stjórninni þarf því engar getsakir að gera út af þessu, enda væri henni skaði að, ef rangar væru.

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) talaði og af mikilli vanþekkingu um símtöl og frímerki embættismanna. Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir svarað því. Jeg vil að eins nefna eitt atriði, sem sýnir, að framsláttur þm. (J. B.) um þetta er fjarstæða. Síðan stríðið hófst er stöðugt verið að krefja sýslumenn um ýmiskonar skýrslur og upplýsingar, og altaf eru þær heimtaðar símleiðis. Heldur nú háttv. þm. (J. B.), að þetta færi ekki fram kostnaðinn? Heldur hann, að það kosti ekki dálítið að senda hvað eftir annað símleiðis skýrslur um vörubirgðir á öllu landinu, verð þeirra í hverju kauptúni o.fl. o.fl.? Þetta ætti þm. (J. B.) að vera kunnugt um, þar sem hann situr í verðlagsnefndinni, en hún hefir ekki gert minst að því að fá skýrslur utan af landi, sem orðið hefir að senda símleiðina.

Það var óhyggilegt af þingmanninum að vera nokkuð að minnast á óendurgreidda málskostnaðinn. Jeg skil ekki í því, að hann hafi nein tök á að mynda sjer nokkra skoðun um þann lið, og orð hans sýndu, að hann hefir ekki einu sinni reynt það. Málskostnaður getur oft verið ófáanlegur, t. d. þegar menn reynast algerlega saklausir. Þá á hið opinbera að bera kostnaðinn samkvæmt lögum. Hvað það snertir, að skrá hefði átt að fylgja, þá er hún ekki til, en yfirskoðunarmenn gátu kynt sjer alt hjer að lútandi hjá stjórninni.

Yfirleitt hefir 1. þm. Reykv. (J. B.) verið að tala um það, sem hann ber ekki minsta skyn á.

Um peningaskápinn þarf ekki margt að segja. En jeg hygg, að peningarnir, sem í honum eru, sjeu ekki ver komnir, þótt bankastjórnin hefði annan lykilinn og landsstjórnin hinn. En fjeð þarf að vera þarna, ef stórar greiðslur koma fyrir. Þá er nauðsynlegt að geta gripið til þessa fjár. Þetta fyrirkomulag, að geyma meginhluta peninga landssjóðs í sjerstökum skáp, er tveir geyma lykla að, er gamalt, frá dögum landfógeta og landshöfðingja, og til þess gert, að fje þetta sje tryggilega geymt. Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) hefir því vaðið mjög reyk í þessu efni.