02.08.1917
Neðri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í C-deild Alþingistíðinda. (2743)

88. mál, veiting læknishéraða

Magnús Pjetursson:

Já, það hefir farið nokkurt orð af því, núna upp á síðkastið, að ekki væri alt sem þarfast, sem lagt væri fyrir þingið að þessu sinni, og að ekki væri vanþörf á, að betur væri vandað til sumra mála heldur en gert er. Hafi nú þessi orðrómur átt við nokkur rök að styðjast áður, þá færist þó skörin fyrir alvöru upp í bekkinn, þegar þetta frv. kemur til sögunnar. Jafnóþarft frv. hefir þó ekki komið fram áður, að mínu áliti. Það er meira en óþarft; það væri stórskaðlegt fyrir land og lýð, ef nokkrar líkur væru til, að það kæmist í gegn. Mig stórfurðar á því, að nokkur þingmaður skyldi verða til þess að flytja aðra eins fjarstæðu inn á þing, þrátt fyrir tilmæli þingmálafundanna og dekur við kjósendur. — Jeg sný mjer þá að frv. og greinargerð þess, og ætla að athuga nánar einstök atriði. Í ræðu háttv. flm. (S. S.) kom ekkert nýtt fram, svo að jeg get algerlega leitt hana hjá mjer, og snúið mjer að frv. og greinargerðinni.

Frv. heitir frv. til laga um veitingu læknishjeraða. Svo er strax vikið að því að ákveða, hvernig kosning lækna skuli fram fara, og um það snýst frv. alt. Hvergi er á það minst eða það fyrirskipað, að kjósa skuli lækni fyrir hjeraðið. Það má ef til vill segja, að þetta sje formgalli, sem auðvelt væri að laga, ef frv. kæmi til nefndar. En svona lagaður frágangur ber vott um það, að frv. sje ekki borið fram fyrir innri hvöt eða sannfæringu flutnm. Enda munu það varla getsakir, að tilgangur háttv. flm. (S. S.) sje sá, að kaupa sjer frið og fylgi kjósendanna, með því að bera það fram, en ekki sje til þess ætlast, að það verði að lögum.

Þá kem jeg að fyrstu ástæðunni í greinargerðinni fyrir frv. Hún er sú, að jafnrjettmætt sje, að þjóðin fái að kjósa sjer lækna eins og presta. Þetta virðist nú ekki vera neitt ósanngjörn krafa og hún lítur talsvert vel út á pappírnum. En er þá ekki ástæða til að athuga, hvernig farið er að, þegar prestskosning á að fara fram? Umsækjendurnir koma í hjeraðið, sýna sig, tala við fólkið, prjedika í kirkjunum og gera yfir höfuð að tala alt, sem þeir geta, til að láta sem mest bera á kostum sínum og yfirburðum yfir keppinautana. Nokkuð svipað ættu nú læknar að fara að. Þeir yrðu sennilega að ferðast um hjeraðið áður en kosning færi fram. Háttv. flutnm. (S. S.) tók það beinlínis fram, að þeir yrðu á ferð. Á þessu ferðalagi sínu eiga þeir að reyna að færa mönnum heim sanninn um það, hve góðir læknar þeir sjeu. (E. Á.: Þeir verða þá að búa til veikindi). Þótt prestunum gangi stundum nokkuð vel að sýna, hve góðir andlegir læknar þeir eru, þá er talsvert öðru máli að gegna með þá. Þeir hafa haft tækifæri til þess að æfa sig í því að semja ræður og í öðru, sem þarf til að sýna andlega yfirburði. Þetta er öllu erfiðara fyrir læknana. Jeg veit, satt að segja, ekki, hvort háttv. flm. (S. S.) hefir gert sjer það ljóst, á hvern hátt þeir eigi að sýna yfirburði sína sem læknar á þessum ferðalögum (S. S.: Með því að lækna). Með því að lækna, já, það er sennilega tilætlunin, að þeir ferðist um með apótek, gefi púlver og pillur og þar fram eftir götunum. Þá yrðu menn líka að fá að reyna, hver væri bestur til að taka af lim, hverjum færist best að draga út tönn, eða binda um beinbrot, hver hjálpaði best konum o. s. frv. En jeg veit ekki, hver vill eða getur sjeð um, að nóg verkefni væri til, þegar á þarf að halda. Líklega yrðu þeir, sem mestan áhuga hefðu á kosningunni, að leggja líkami sína fram til tilrauna. Ekki trúi jeg því, að hv. flm. (S. S.) elski kjósendur sína svo heitt, að hann vildi leggja sinn háttvirta líkama til, svo að læknarnir gætu skorið og flensað í hann, til — kosningabeitu. Þetta er nægilegt til að sýna, hve mikil fjarstæða frumvarpið er.

Þá er önnur ástæðan sú, að með kosningunni sje fengin trygging fyrir því, að sá fái embættið, sem færastur er. Jeg veit, ekki hvort nokkur háttv. deildarmanna getur sjeð þessa tryggingu. En af því, sem jeg hefi þegar sagt, er auðsætt, að erfitt er að skera úr því, hver sje bestur læknir af umsækjendunum, og hæpið, að kjósendur gætu fengið nokkra hugmynd um það. Sá yrði auðvitað best settur við kosninguna, sem duglegastur er að koma ár sinni fyrir borð og afla sjer fylgis, og það mun þó engum detta í hug, að það sje ávalt besti læknirinn. Nei, tryggingin fvrir því að fá góðan lækni er engin, ef hjeraðsbúar eiga að kjósa. Í því efni stendur landlæknir og landsstjórn miklu betur að vígi. Læknarnir yrðu að sjálfsögðu að ferðast sjálfir um hjeraðið, til að „agitera“ fyrir sjer. Það væri ekkert óskemtilegt, ef fleiri eða færri af læknum landsins yrðu að taka sig upp úr hjeruðum sínum, til þess að fara að „agitera“. Fyrst og fremst er nú ekki víst, að þeir gætu komið því við, og í öðru lagi er jeg viss um það, eftir því sem jeg þekki innræti lækna yfirleitt, að það yrðu ekki úrvalslæknarnir, sem legðu út í það að níða stjettarbræður sína niður, til þess að afla sjer kosningafylgis. Ekki yrðu aðfarirnar betri, þótt læknar fengju umboðsmenn til að „agitera“ fyrir sig. Venjulega eru umboðsmenn hálfu óvandari að meðulum en frambjóðendur sjálfir. Niðurstaðan yrði áreiðanlega sú, að læknar mundu sem mest sneiða hjá því að sækja um læknishjeruðin, ef þeir ættu von á slíkum ófagnaði. Og hvað er þá orðið úr tryggingunni fyrir því að fá góðan lækni? — Jeg ætla að fara fljótt yfir sögu, því að yfirleitt er frv. ekki þess virði, að eytt sje orðum að því. En jeg verð þó að fara nokkrum orðum um þriðju ástæðuna. Hún er sú, að með því að kjósa fái menn þann lækni, sem þeim er geðfeldastur og þeir beri best traust til. Þetta á nú sennilega að vera höfuðástæðan fyrir frv. Hún væri nú líka nokkuð veigamikil, ef ekki væri einn hængar á henni. Hefði ekki verið rjettara að segja, að meiri hlutinn fengi þann lækni sem honum væri geðfeldastur? Vitanlegt er það, að alltaf mundi verða minni hluti, sem væri óánægður með úrslitin, og því óánægðari, sem kappið var meira í kosningunni. Þessi minni hluti mundi reyna að gera lækninn tortryggilegan og ala á óánægjunni á allar lundir. Hvort það sje svo holt, að sumir hjeraðsbúar beri kala og vantraust til læknisins síns, þarf jeg líklega ekki að útskýra. Jeg þekki dálítið inn á þetta. Nú gæti það hugsast, að minni hlutinn vildi leggja svo mikið á sig, að þeir vildu leggja fram fje til að fá sjer nýjan lækni, og ala með því á úlfúð og flokkadrætti í hjeraðinu. (S. S.: Þess eru nú dæmin). Já, þess eru dæmi. En til þess eru vítin að varast þau, en ekki að apa þau eftir.

Það er aldrei gert ofmikið úr því, hve skaðlegt það er, þegar hver höndin er upp á móti annari, og órökstuddir sleggjudómar lagðir á athafnir manna. Það hlýtur að drepa allan áhuga og viðleitni, þegar alt, sem reynt er að gera, er gert ómögulegt fyrir flokkadrætti og úlfúð. Reyndar geri jeg nú ekki svo mikið úr þeirri hættu, að minni hlutinn nái sjer í annan lækni, Það mundi verða erfitt að fá nokkurn lækni til að taka tilboði þeirra, þegar svona væri ástatt.

Jeg ætla nú ekki að taka meira fram að sinni. Margt mætti fleira um frv. segja, en jeg álít þess ekki þörf, og vona, að frv. fari ekki lengra. Það er engin ástæða til að tefja tímann á því að setja jafnauðvirðilegt frv. í nefnd, enda mun háttv. deildarmönnum nú fullljóst hvílíkur skaðræðisgripur hjer er á ferðinni.