02.08.1917
Neðri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í C-deild Alþingistíðinda. (2744)

88. mál, veiting læknishéraða

Benedikt Sveinsson:

Jeg lít mjög líkt á þetta mál og háttv. þm. Stranda. (M. P.) og hefir hann tekið flest af því fram, sem segja þarf um þetta mál, svo að jeg get verið stuttorður; ætla að eins að drepa á rökin, sem færð eru fyrir frv.

Um fyrstu ástæðuna er það að segja, að það er ósannað mál, hvort þjóðin hefir haft svo mikið gagn af prestskosningunum, sem sumir láta. Jeg býst við, að ýmsir geti bent á nokkuð mörg dæmi þess, að þær hafi tekist óhöndulega. Og þótt ekki sje litið á það, þá standa læknar alt öðruvísi að vígi við kosningar heldur en prestar. Það liggur betur fyrir prestum eða prestaefnum að spreyta sig á ræðuhöldum og öðru því, er þarf til að koma sjer í mjúkinn hjá fólkinu. Jeg sje því varla, að hægt sje að líkja saman prestskosningu og læknakosningu.

Önnur ástæðan er sú, að hjeruðin fái betri lækna. Mjer finst þetta vera hreinasta fjarstæða. Alþýða manna hefir að jafnaði ekkert færi á að þekkja mennina, sem á boðstólum eru, og hefir engin gögn í höndum til að meta kosti þeirra. Umsækjendur eru oft ungir menn, sem lítt eru þektir og litla reynslu hafa að baki sjer, en geta þó verið efni í ágætislækna. Stjórnarráðið á miklu hægra með að afla sjer upplýsinga um mennina, þar sem það getur leitað umsagnar landlæknis, sem ávalt mun vera gert, þegar læknisembætti er veitt. Auk þess á stjórnin hægt með að snúa sjer til háskólakennaranna eða til læknaráðsins í Reykjavík. Jeg hefi ekki heyrt kvartað undan því, að stjórnin hafi misbeitt veitingarvaldi sínu á þessu sviði, svo að nokkur ástæða sje til að koma með frv. þess vegna.

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) hefir sýnt fram á, að þriðja ástæðan er veigalítil. Hjeraðsbúar mundu skiftast í meiri og minni hluta. Tryggingin fyrir því, að góður læknir fáist í hjeraðið, er að mun skert við kosninguna, en í þess stað er mjög hætt við, að kæmist inn kali meðal þeirra, sem lúta yrðu í lægra haldi, til þess læknis, sem kosningu hefði hlotið, og spilti fyrir góðu samkomulagi hans við hjeraðsbúa. Og það er mjög svo óheppilegt, ef slíkur kali kemst inn fyrirfram. Erfiðara fyrir lækninn að ráða bót á því á eftir, eða koma góðri samvinnu á. Þessar kosningar mundu líka reynast mjög svo óhentugar í framkvæmdinni. Læknaefnin eyða venjulega fje sínu á námsárunum, þeir sem eitthvað eiga. Hinir hleypa sjer í skuldir. Það væri tilfinnanleg viðbót fyrir fátæka lækna að byrja embættisbraut sína með því að leggja út stórfje til að heyja kosningabaráttu. Þeir yrðu að sjálfsögðu að stunda lækningar í hjeraðinu um lengri eða skemri tíma, kaupa sjer áhöld og apótek og búa sig út að öllu leyti. Auk þess yrðu þeir að æfa sig í ræðuhöldum og ýmsu því, sem þarf til að laða að sjer hugi fólksins. Þeir þyrftu mikinn undirbúning til að rannsaka jarðveginn, kynna sjer sálarástand lýðsins, áður en farið væri að beita áhrifum sínum til að undirbúa kosninguna.

Þó getur þetta komið sjer enn ver góðum og gömlum læknum, er þyrftu að taka sig upp úr hjeruðum sínum og fara í kosningaleiðangur. Það myndi og horfa til stórvandræða, ef mörg hjeruð þyrftu að sjá á bak læknum sínum um langan tíma, t. d. 2—3 mánuði, meðan stendur á kosningaundirbúningnum. En við þessu má vel búast, þegar eitthvert gott embætti losnar, t. d. hjeraðslæknisembættið hjer í Reykjavík.

Jeg fæ ekki heldur sjeð, að þetta mál sje borið fram af vilja almennings. Raunar hefir því verið hreyft á einstaka þingmálafundi, með margra ára millibili, en dýpri rætur á það ekki. Og þótt þetta mál hafi nú komið fram á þingmálafundi í Árnessýslu, þá ætti það ekki að teljast til meðmæla með frv. Þar hefir komið fram hneykslismál, í því fólgið, að hafinn var andróður gegn lækni, sem þangað flutti, manni, sem viðurkendur var af íbúum síns fyrra hjeraðs og læknastjett landsins sem einn hinn lærðasti læknir landsins, og auk þess valinkunnur maður, hinn skylduræknasti og mætismaður í hvívetna. En þrátt fyrir það var hafinn andróður gegn honum í Árnessýslu og reynt að bola hann frá embætti. Auðvitað var þetta sprottið af undirróðri einstakra manna, sem voru blindaðir sjálfir, en höfðu tök á því að æsa upp hleypidóma fákunnandi lýðs. Það er full ástæða til þess að vita þessa framkomu þeirra gegn einhverjum besta lækni landsins, og má telja, að deildin geri sitt til þess, með því að fella þetta óviturlega frv.