02.08.1917
Neðri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í C-deild Alþingistíðinda. (2745)

88. mál, veiting læknishéraða

Þorleifur Jónsson:

Jeg hefði nú getað fallið frá orðinu, með því að tveir hinir síðustu ræðumenn hafa talað í líka átt og jeg mundi hafa viljað, en samt þykir mjer þó hlýða, að jeg geri grein fyrir atkvæði mínu.

Því verður ekki neitað, að í fyrsta bragði lítur það frjálslega út að vilja veita hjeraðsbúum rjett til þess að kjósa lækna, en eins og hv. þm. Stranda. (M. P.) tók fram er það frelsi fyrir meiri hlutann, en þvingun fyrir minni hlutann. Fordæmið, sem komið er með prestskosningalögunum er svo lagað, að það er varasamt fyrir löggjafarvaldið að fara lengra á þeirri braut. Prestskosningalögin hafa ekki orðið að þeim notum, sem ætlast var til. Af þeim hefir stundum leitt óánægju og rifrildi í söfnuðunum, og stundum hefir rekið að því, að minni hlutinn hefir sagt sig úr lögum við meiri hlutann. Það er hætt við því, að ekki yrði betri árangur að læknakosningalögum. Þær mundu leiða til megnra „agitationa“, og eftir á mundi alt loga í báli og brandi milli meiri og minni hlutans og milli læknisins og andstæðinga hans. Jeg fæ ekki heldur sjeð, að bent verði á, að stjórnin hafi svo mjög misbrúkað þennan veitingarrjett. En af því, sem nú var sagt, er auðsætt, að þótt frv. líti frjálslega út, þá getur það leitt til mesta ófrelsis og mæðu fyrir almenning.

Í annan stað er þess að gæta, að ef almenningi verður veittur þessi rjettur, að kjósa lækna, þá er líklegt, að ungir menn renni helst út, þótt með öllu sjeu óreyndir, því að alment halda menn, að ungi læknirinn sje betri en sá eldri, og svo má gera ráð fyrir, að kandidatar verði liprari á kosningarveiðum, en eldri menn.

En hvað leiðir þá af þessu? Þar af leiðir hið fyllsta órjettlæti, sem orðið getur; það gerir eldri læknum, sem sitja í erfiðum hjeruðum nær ókleift að losna þaðan eða að fá ljettari hjeruð. Þetta er talsvert athugunarefni, því að menn geta vel verið færir um að sitja í ljettu hjeraði, þótt þeim veitist erfitt að gegna stóru hjeraði, þar sem erfið ferðalög eru. Jeg verð því að telja frv. mjög ósanngjarnt í garð læknastjettarinnar, sem alls ekki á það skilið, því að ekki er hægt að neita því, að á síðari árum hafa þessari stjett bæst mjög margir dugandismenn.

Ef jeg sæi, að þetta frv. væri til blessunar, þá mundi jeg vera með því, en nú fæ jeg ekki annað sjeð en að það leiði til trafala og óblessunar. Það getur verið, að alþýða telji þetta frelsi, en jeg tel það ekki vera það, þegar öllu er á botninn hvolft.