27.07.1917
Neðri deild: 19. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í C-deild Alþingistíðinda. (2751)

99. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Björn Stefánsson):

Jeg býst við, að frv. þetta þyki bera vott um litla lögfræðaþekkingu, þar sem lagt er til að bæta inn í sveitarstjórnarlögin grein, aftan við grein, sem áður er búið að breyta og þar með er úr lögum numin. En þetta ætti ekki að spilla fyrir því, að breytingin verði færð inn á rjettan stað. Væntanleg nefnd mun leiðrjetta þetta ásamt öðru, sem ábótavant kann að þykja.

Það, sem farið er fram á í 1. gr. frv.,

er gamall gestur hjer, sem sje að gera sveitarstjórnarlögin mannúðlegri, svo að jeg þarf ekki að fara fleirum orðum um það enda ber greinin sjálf það með sjer og greinargerðin aftan við frv. Greinin er svo orðuð, að orkað hefir tvímælis, hvað meint sje, en jeg vona, að allir viti, til hvers er ætlast, og lesi í málið. Annars hefir orðalagið að því orðið svo heppilegt, að það hefir veitt gamansömum hagyrðingum tilefni til vísnagerðar, mjer og öðrum til gleðskapar, og þegar frv. nú þar á ofan vitnar í grein, sem ekki er í lögum, þá vona jeg, að jeg og aðrir verði gladdir með vísu í Morgunblaðinu á morgun. Þetta gerir mönnum ljettara í skapi, svo að jeg vona, að menn líti ekki síður vingjarnlega á frv. fyrir það.

2. gr. frv. er svo til komin, að á sýslufundi Suður-Múlasýslu var skorað á Alþingi að skýra svo greinina, að ekki yrði vafa undirorpið, hvað í henni fælist. Þetta atkvæði hefir valdið ágreiningi, bæði milli sýslunefnda og milli hreppsnefnda og einstaklinga. Það hefir verið lagt á utanhreppsmenn, sem um tíma hafa stundað veiði í dvalarhreppnum; hafa oft risið af þessu útsvarskærur. En um leið og þessu ákvæði er breytt, þá er og rjett að setja takmark fyrir þessu útsvari. Það er eðlilegt, að þeir hreppar, sem fyrir ákvæðinu verða, sjeu óánægðir, en hinir hrepparnir, sem fá aukatekjur á þennan hátt, vilja auðvitað halda í þær dauðahaldi, enda má það og sýnast sanngjarnt, að þau sveitarfjelög beri eitthvað úr býtum, þar sem utanhreppsmenn reka arðsama atvinnu, svo sem síldveiði eða fiskveiði, enda getur það á ýmsan hátt þrengt að hreppsbúum sjálfum, — þrengt fyrir dráttarpláss og nóta- og netalög. — En þótt sanngjarnt sje, að þessir hreppar fái eitthvert gjald, þá hefir mjer samt þótt rjett að slá varnagla við því, að óbilgjarnar hreppsnefndir noti sjer þennan rjett úr hófi fram. En þá getur verið spurning um, hvað hæfilegt sje, — ofhátt hefi jeg að minsta kosti ekki farið. Er það rannsóknarefni fyrir væntanlega nefnd, en hver sú nefnd á að vera getur verið vafasamt. Mannfjölgunarspursmálið bendir til mentamálanefndar, en 2. gr. varðar atriði, sem að ýmsu leyti heyra undir sjávarútvegsnefnd. Frv. fjallar þannig um óskyld efni, en er þó breyting á sama lagabálki — sveitarstjórnarlögunum; niðurstaðan er þá helst sú að vísa frv. til allsherjarnefndar, sem er svo rúmgóð, að hún getur tekið við öllu. Menn hafa þráfaldlega rekið sig á það að fram kemur fjöldi mála, sem í eðli sínu heyra ekki undir neina af fastanefndunum, t. d, heilbrigðismál, fátækramál o. fl., og verða þau þá öll að lenda í hinni rúmgóðu allsherjarnefnd. Er það þá tillaga mín, að frv. verði vísað til hennar, enda er hún svo vel skipuð að lögfræðingum, að vorkunnlaust er þeim að leiðrjetta lögvillurnar.