08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í C-deild Alþingistíðinda. (2754)

99. mál, sveitarstjórnarlög

Björn Stefánsson:

Jeg sje á nál., að allsherjarnefnd hefir ekki fallist á, að frv. mitt skapaði meira jafnrjetti eða rjettlæti en nú á sjer stað. Mjer virðist röksemdaleiðsla nefndarinnar vera því sem næst þessi. Af því að frv. nær ekki svo langt, að það leiðrjetti allar misfellur, skal því ekki leyft fram að ganga. En það viðurkennir nefndin, að það væri til bóta. Hæpin finst mjer sú fullyrðing nefndarinnar, að ef dregið sje úr ranglæti því, sem á sjer stað, þá verði þeir fyrir meira ranglæti en áður, sem frv. nær ekki til. Jeg vil minna á verkamennina í víngarðinum. Þeim, sem fyrst komu, var ekki gert rangt til, þótt hinir, sem síðast komu, fengju jafnmikil laun og þeir. Þetta er gullvæg regla, og hefði nefndin átt að muna hana betur.

Því er haldið fram í nál., að það sje misrjetti, að sá haldi atkvæðisrjetti í sveitarmálum, sem fær 70 kr. með hverju barni sínu, en ekki hinn, sem fær 75 kr. Einhversstaðar verða takmörkin að vera. Það mætti með jafnmiklum sanni segja, að það væri misrjetti, að sá, sem fær 5 kr. sveitarstyrk, missi atkvæðisrjett sinn, en ekki hinn, sem að eins slampast áfram án þess að þiggja styrk. Það mætti ávalt segja, að þeir, sem eru næstir takmörkunum, verði fyrir misrjetti. Hví fór nefndin ekki lengra en frv., og gerði till. um, að menn hjeldu kosningarrjetti í sveitarmálum hvort sem þeir þægju mikið eða lítið af sveit ? Það hefði verið rökrjettara frá sjónarmiði sjálfrar nefndarinnar.

Nefndin segir, að frumv. auki misrjetti á fötluðum mönnum, sem eigi kann ske bara tvö börn. Það má vera, að það sje rjett. En af hverju kom nefndin þá ekki með þá brtt., að styrkur til uppeldisbarna fatlaðra manna skuli ekki talinn sveitarstyrkur? Jeg þorði ekki að fara svo langt, hjelt að það myndi spilla fyrir, að frv. næði fram að ganga. En 70 króna takmarkið er miðað við það, að þeir menn sem þiggja ekki meira með hverju barni sjá bæði fyrir sjálfum sjer og börnunum að nokkru leyti. Því að enginn þarf að halda, að 70 kr. nægi til framfærslu einu barni hálft ár.

Það kemur oft fyrir, að hagur þeirra manna, sem þegið hafa af sveit, rjettist. Menn, sem eru farnir að afborga sveitarskuld sína, sjá fyrir sjer og sínum sjálfir og heldur betur. En ef sveitarskuldin er stór, og þeir fá rjettindi sín ekki aftur fyr en þeir hafa goldið hana að fullu, er hætt við, að menn byrji ekki á að afborga hana, því að þeim finnist ekkert unnið við það. Það er ómannúðlegt ákvæði, að menn öðlist ekki rjettindi sín aftur nema þeir borgi alt. Nærri má geta, að menn, sem eru nýsloppnir af sveit, eru ekki orðnir neinir efnamenn, sem geti borgað stórar skuldir, þótt þeir hafi rjett nokkuð við. En sjeu þeir byrjaðir að afborga, eru þeir starfandi menn, sem eru engum til byrði og þá er hart, að rjettindum þeirra skuli haldið fyrir þeim.

Jeg skal einnig minnast lítils háttar á hina greinina. Nefndin hefir ekki fallist á skattaákvæði hennar, með því að eftir henni sje lagt á menn í tveim hreppum. En þetta á sjer einmitt stað. Það er „praktiserað“ í núgildandi lögum. Það hefir líka oft valdið ágreiningi, eins og því er nú komið fyrir. Í nál. segir, að rjett sje að leggja á útgerðarmenn, eftir efnum og ástæðum, þar sem þeir veiði. Þótt nú útgerðarmaður úr Rvík legði nót í sjó Seltjarnarneshrepps, er jeg ansi hræddur um, að ýmsir Reykvíkingar myndu þakka fyrir, ef Seltirningar legðu á hann eftir efnum hans og ástæðum, fram yfir það, sem hann hefur veitt. Í frv. mínu er einmitt ætlast til, að ekki sje ofmikið lagt á menn, þótt þeir leiti út fyrir sinn eigin hrepp til að bjarga sjer. Það vakti fyrir mjer að reyna að koma í veg fyrir sundurlyndi og útsvarskærur. Það verður best gert með því að hafa gjaldið ákveðið, svo að því verði ekki breytt. En í sjálfu sjer er sanngjarnt að hafa eitthvert gjald. Með nótadrætti er oft þrengt að hreppsbúum; oft væri hreppunum fyrir bestu, að óviðkomandi mönnum væri alls ekki hleypt að. Það er og rjettmætt, að gjaldið fari eftir veiðinni; og svo er einmitt ákveðið í greininni, og eftir henni verður altaf sama hlutfall á milli veiðarinnar og gjaldsins. Eignir þær, sem aðkominn veiðimaður á annarsstaðar, eiga ekki að koma gjaldinu neitt við, því að sá hreppurinn, þar sem hann á heimilisfang, á allan rjett til að leggja aukaútsvar á þær.

Hitt er annað mál, og má um það deila, hvort jeg hefi sett hundraðsgjaldið hæfilega hátt, eða nógu hátt. Jeg fullyrði að eins, að ofhátt sje það ekki.