08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í C-deild Alþingistíðinda. (2755)

99. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Einar Jónsson):

Jeg skal ekki vekja þrætur um þetta mál. Persónulega er mjer það ekki áhugamál. Og væri mjer þó heldur ver við, að það væri samþykt. Flm. (B. St.) gerði lítið úr rökfærslu nál.; jeg tek það ekki nærri mjer, þótt jeg hafi skrifað það. Hann vildi sýna fram á, að hinir, sem frv. hans nær ekki til, þyrftu ekki að vera óánægðir yfir neinu misrjetti, og vitnaði í biblíuna, máli sínu til sönnunar. Að mínu áliti var dæmið ekki sem allra heppilegast, því að jeg lít svo á, að það hafi verið hrein gjöf, sem þeir, sem komu á elleftu stundu í víngarðinn, fengu fram yfir þá, sem fyrst komu, og ef menn vildu ætíð hjálpa þeim með gjöfum, sem sveitarstyrks þurfa að beiðast, færi alt á annan veg.

1. gr. frv. er ekki betur orðuð en það, að eftir henni lítur út fyrir, að hver strákur, sem hefir verið svo sprækur að eignast 4 krakka, fái þar með kosningarrjett, hvort sem hann fullnægir öðrum skilyrðum eða ekki til kosningarrjettar; gæti meira að segja náð sjer kosningarrjetti með því að unga út 4 krökkum á sveit, sem ekki kostuðu sveitina yfir 70 krónur hvert. Svona vitlaust er þó nefndarálitið hvergi. Jeg skal ekki fara í hnippingar út af þessu. Það er ekki nema eðlilegt, að flm. (B. St.) sje hlyntur sínu eigin frv. En jeg er því mótfallinn. Annars skal jeg ekki þreyta deildina á jafn ljelegu máli, og býst við, að háttv. deild veiti því lítið fylgi.