03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í C-deild Alþingistíðinda. (2764)

104. mál, heyforðabúr og lýsisforðabúr

Frsm. (Jón Jónsson):

Eins og hv. deildarmenn geta sjeð þá leggur landbúnaðarnefnd móti því, að þetta frv. verði samþ. Það er allítarlega um málið skrifað í áliti nefndarinnar á þgskj. 733, og finn jeg því ekki ástæðu til að fjölyrða um það nú. Jeg vil þó geta þess, að nefndin lítur svo á, að ekki sje gerlegt með nokkru móti að taka þá stefnu í heyforðamálinu, sem stungið er upp á í þessu frv. Og enn fremur telur nefndin mjög óheppilegt að ætla að skylda menn með lögum til þess að haga sjer í heyforðamálinu eins og þetta frv. mælir fyrir. Í 7. gr. frv. er svo tiltekið: „Sveitarstjórn skal koma á fóðurforðabúri á einum eða tveim hentugum stöðum í sveitinni, hjá góðum heyjabændum á góðum heyskaparjörðum“. — Eins og mönnum er kunnugt, þá eru nú sumir hreppar æði víðlendir, svo að ef skylda á alla til að láta hey í þessi forðabúr, þá verður auðvitað að ganga svo frá því, að hverjum einstökum bónda gefist kostur á að nota þetta forðabúr, svo framarlega sem þörf gerist. En í mörgum sveitum mun staðháttum vera þannig varið, að ekki getur komið til mála, að 1—2 forðabúr mundu nægja. Það mundi auðvitað duga í einstaka hreppum, en hvergi nærri alstaðar,

Jeg hefi nú, til að gera mönnum þetta mál ljósara, tekið sem dæmi 1 hrepp úr kjördæmi hv. þm. Dala. (B. J.), sem er flm. frv., og athugað, hversu mikið þarf af heyi til að ná því hámarki, sem ákveðið er í frv. Þetta dæmi er tekið úr Miðdalahreppi í Dalasýslu. Mjer telst svo til, að til þess að ná þessu hámarki þurfi þessi hreppur að leggja í heyforðabúr 11787 hesta af heyi. Eins og menn geta sjeð þá er hjer ekki um neitt smáræði að tefla. Auk þess þarf skýli yfir alt þetta hey, og þá auðvitað hlöður, eins og áskilið er í frv. Því að menn geta sagt sjer það sjálfir, að það gagnar ekki að hafa það í „heyjum“, sem altaf þarf að vera að smátaka af, því að þá væri mjög ilt að verja heyin skemdum. Það er ekkert spursmál, að einungis hlöður koma hjer til greina. En jeg hygg, að hlöður undir svona mikið hey mundu verða æði kostnaðarsamar, og því að eins gerlegt að byggja þær, að brýn nauðsyn beri til. — Nefndin lítur svo á þetta, að ekki nái nokkurri átt, að leggja út í þennan kostnað, nema því að eins, að enginn annar útvegur sje fær, og sveitinni sje ekki trúandi til að sjá þessu hæfilega borgið. Þetta er nefndin, aftur á móti, sannfærð um að kemur ekki fyrir. Og þótt svo nú færi að lögin yrðu samþykt, þá tel jeg þau lítt framkvæmanleg, og geng að því sem gefnu, að þeim muni ekki verða framfylgt. Við þurfum ekki að fara lengra en í forðagæslulögin til að sjá, hversu bágt menn eiga með að binda sig við slík skylduákvæði. Allir vita, að ekki er þeim fylgt fram alstaðar. En hvað mundi verða, ef ætti að fara að skylda hvern bónda til að flytja svo og svo mikið af heyi svo og svo langan og má ske slæman veg í þessi forðabúr, án þess má ske að hafa nokkurn tíma annað en stritið fyrir. Jeg býst við, að það mundi koma kurr í marga út af því. — Þá stendur svo í frv., að „hver eigandi fjár skal láta hvert sumar einn hest af góðu heyi í forðabúr á hverjar 20 sauðkindur og geitkindur og einn hest á hvern fullorðinn nautgrip og fjögur hross“. Ef nú þetta er athugað í sambandi við Miðdalahrepp, sem jeg tók sem dæmi áðan, þá er hjer ætlast til, að meira hey sje lagt í forðabúrið heldur en sem svarar því, sem heyjaðist í hreppnum árið 1915. Eftir þessari reglu mundu settir í forðabúrið 393 hestar á hverju ári. Og þó yrði þessu fyrirskipaða hámarki ekki náð fyr en eftir 30 ár. Mjer er ekki ljóst, hvers hv. þm. Dala. (B. J.) ætlast til, er hann sjer þetta, hvort hann álítur, að byggja skuli hlöður fyrir alt þetta hey í einu, eða hvort byggja á jafnóðum og forðinn myndast. Sje það meiningin, þá þarf að byggja yfir 400 hesta á hverju ári í 30 ár. Og munu flestir renna grun í, hversu mikill kostnaður það mundi verða. — Um lýsiskaupin er það að segja, að nefndin lítur svo á, að þessi hugmynd hv. flm. (B. J.) sje að mörgu leyti góð, og framkvæmanlegri en hin hugmyndin. En þó finst henni ekki heppilegt að fara að skylda menn til að kaupa.

Jeg hygg, að hv. flm. (B. J.) hafi samt ekki athugað þetta svo vel, sem æskilegt væri. Því að ef við höldum okkur við dæmið, sem jeg tók áðan í Miðdalahreppi, þá yrði framlag bænda þar 29 kr. 30 a. á ári til lýsiskaupa (framteljendur 84). Ef nú potturinn er gerður 58 a. (eða tn. 70 kr.), þá verða það ekki nema 50 pt. af lýsi, sem hægt er að kaupa á ári fyrir framlög í þessum hreppi, en þar er hámarkið 7858 pt. Þetta sjá allir að er allsendis ófullnægjandi, svo framarlega sem það á að koma að nokkru haldi. Jeg er hræddur um, að mönnum mundi þykja seinunnið að ná þessu tiltekna lýsishámarki, því að í það mundi ganga hálfönnur öld rúmlega, þótt aldrei yrði neinu slept úr. — Jeg skal svo ekki fara fleirum orðum um þetta frv. — Vitanlega hefir hv. þm. Dala. (B. J.) ekki meint annað en gott með þessu frv., og tilgangur hans verið sá að fyrirbyggja það, að hey þryti. En það verður að gæta allrar varúðar í þessum efnum, og ekki samþykkja annað en það, sem líkur eru fyrir að landsmenn geti sætt sig við. Við höfum bæði samþyktir um heyforðabúr og kornforðabúr, og enn fremur forðagæslulögin. Og svo framarlega sem öllu þessu væri framfylgt sómasamlega, þá efast jeg ekki um, að það mundi duga. Að endingu vil jeg bæta því við, að nefndin leggur á móti þessu frv., og sjer ekki neitt, sem gæti rjettlætt, að það næði fram að ganga.