03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í C-deild Alþingistíðinda. (2765)

104. mál, heyforðabúr og lýsisforðabúr

Bjarni Jónsson:

Jeg get ekki sagt annað en að það gleður mig, að hv. landbúnaðarnefnd hefir tekið svo í þetta mál mitt. Það var ekki annað en það, sem jeg bjóst altaf við. Hv. frsm. nefndarinnar (J. J.) byrjaði mál sitt á því, að nefndin hefði ekki sjeð sjer fært að taka upp þá stefnu í heyforðamálinu, sem talað er um í frv. Það kann nú vel að vera. En þó stóð það þessari nefnd næst, og var jafnvel skylda hennar, að sýna fram á með rökum, hver ætti þá að vera stefnan framvegis. Það lítur helst út fyrir, að nefndin vilji halda sjer við þá stefnu, sem hefir verið hjer á landi í þúsund ár, að láta drepast úr hor á hverju einasta ári. Það hefir sem sje sýnt sig fyrir löngu, að þessi heimildarlög, sem til eru nú, og ætlað er að fyrirbyggja felli, eru algerlega gagnslaus. Það mætti alveg eins taka þau og brenna, því að þá hættu menn að standa í þeirri meiningu, að þau geri nokkurt gagn. — Þessir menn, sem eru þektir að því að haga sjer eins ár eftir ár, að vilja hætta öllu, í þeirri von að hafa mikið upp úr litlu, þurfa aðhald ríkisins, ef þeir eiga ekki áframhaldandi að vera þessu landi til skammar. Þessir menn láta ekki undan neinu nema lögum, og þess vegna á að setja þau lög um þetta, sem þörf er á. — Það hefði óneitanlega verið viðkunnanlegra, ef þessi hv. landbúnaðarnefnd hefði lagst dálítið dýpra í þessu máli, og komist nær kjarna málsins, í staðinn fyrir að eyða öllum sínum tíma í að reikna út skrifvillur, er slæðst hafa inn í frv. — En um þetta verst nefndin allra frjetta. Þó hefir hún látið það uppi, að hún er stöðug í rásinni og heldur fast við sína fyrri skoðun, og sína skökku skoðun. — Það var mjer talsvert gleðiefni, því að á meðan get jeg þó verið viss um, að mín skoðun sje sú rjetta. — Það, sem nefndin hefir reiknað út um heyin í Miðdalahreppi, getur vel verið rjett. Jeg flyt þetta frv. fyrir bændur í Dalasýslu, og það eru þeir, sem hafa reiknað þetta út um heyforðabúrin. Jeg veit auðvitað ekki, hversu rjett þeir hafa reiknað, en hins vegar er jeg engan veginn sannfærður um, að nefndinni hafi ekki skjátlast í öllum sínum útreikningum. Það, sem er ámælisvert í framferði nefndarinnar, er það, að þegar hún sjer, að ofmikið er tiltekið í heyforðabúrin eftir frv., þá átti hún að gera þær breytingar, sem betur mættu fara. Í þeim tilgangi var þessu máli vísað til hennar, að hún lagfærði misfellurnar, og hjeldi sjer við stefnu frv., en ekki til hins, að hún ungaði út hártogunum og útreikningum, sem segja, hver niðurstaðan yrði, ef frv. yrði samþykt óbreytt. Þetta hefir hin virðulega landbúnaðarnefnd gert, og telur það svo gilda ástæðu til að fella frv. nú þegar. — Það er líkt að segja um lýsið. Það hefir að líkindum verið misreiknað hjá höfundum frv., því að jeg hefi ekki komið þar nærri. En það er eins með þetta og hitt, að nefndin átti að koma samræmi í þetta, og það átti að vera henni hægur vandi, þar sem hún er svo fær í öllum reikningi. Ekki getur hún borið fyrir sig tímaleysi, því að hún hefir nú legið á þessu frv. í hálfan annan mánuð og svo verður útkoman þessir útreikningar úr Miðdalahreppi, sem jeg efast um að sjeu rjettir. — Það mætti heita undarlegt, ef þessir hv. nefndarmenn eru það miklu gáfaðri en greindir menn í Miðdölum, að þeir hafi á rjettu að standa. En ef nú það væri tilfellið, þá hefði þeim veist því auðveldara að færa þessar villur til betri vegar. — Nefndin hefir reiknað út af mikilli list, að það þyrftu 150 ár til að safna þessu hámarki af lýsi, sem tiltekið er í frv. En það hefði verið öllu fróðlegra, ef hún hefði reiknað út, hvað það líður mikið meira en 150 ár, þangað til önnur eins landbúnaðarnefnd situr hjer á þingi, — Þar sem nefndin talar um þann kostnað, sem þetta hafi í för með sjer, þá kemur sú skoðun berlega í ljós, að landbúnaður sje svo arðvænleg atvinna, að einu gildi, þótt menn kasti stofni sínum í hor annaðhvert ár, því að alt standi jafnföstum fótum eftir sem áður. Það er ekki um hann, eins og aðra atvinnuvegi, að þar þyki nauðsynlegt að leggja í varasjóði og viðhafa alla aðgæslu.

Hv. frsm. (J. J.) varð tíðrætt um það, að það mætti ekki ganga nærri bændum, með því að setja þeim neinar bindandi reglur. Jeg veit þó ekki betur en að þeir sömu búforkar hafi samið lög og skyldað þar með þessa heilögu menn til að þvo fje sitt einu sinni á ári. Jeg get ekki skilið, að það sje svo miklu meir áríðandi en alt annað, að það eitt sje leyfilegt að skylda þá til að þvo rollunum sínum í framan á hverju ári. — Allir vita, að þessi sama nefnd gerði ekki meira úr embættismönnum en það, að hún vildi heimta af þeim sveitarvottorð fyrir dýrtíðaruppbótinni. En maður skyldi þá ætla, að hún metti þá jafnmikils og þessar rollur sínar, eða þá, sem drepa þær úr hor. En sú virðist nú ekki raunin, þar sem þeim er gert það hærra undir höfði, að ekki má með nokkru móti taka fram fyrir hendur þeirra. Það hefði annars verið gaman að því, ef nefndin hefði reiknað út öll þau ósköp, sem hafa verið drepin úr hor hjer á landi, og þá hefði hún má ske getað sjeð, hvort það mundi svara kostnaði að byggja þessar hlöður undir heyforðann. En það er nú ekki því að fagna. Heldur hefir hún tafið málið alt þetta þing, og þegar svo álit hennar kemur, þá er það alt hártoganir, í staðinn fyrir viturlegar tillögur.

Henni þóknast að vísa mönnum á og mæla með kornforðabúrum. Það er víst af því, að nú er svo hægt að ná í kornvöru hingað frá útlöndum; þá er auðvitað sjálfsagt að fæða skepnurnar á þessu korni. En þá gæti maður búist við, að nefndin legði til, að mönnum væri gefið hey í staðinn. Því að það er ekki víst, að það sje svo fjarri sanni, að sumir sjeu svo miklir grasbítir.

Annars skal jeg enda á því, er jeg byrjaði á, að það gleður mig, að jeg stend hjer einn uppi nú, því að þá veit jeg, að þetta mál á framtíð fyrir sjer. Það var svo um 3 eða 4 mál á aukaþinginu í vetur, að jeg stóð einn uppi, en nú eru sum þeirra mestu áhugamál þingsins, er þingmenn voru búnir að jórtra á þeim eitt misseri. Væntir mig, að þegar þessi fluggáfaða landbúnaðarnefnd er búin að hugsa um mál þetta eitt ár, muni hún sannfærð um, að rjett sje að setja upp hey- og lýsisforðabúr með nokkrum hætti.

Það er ein hin mesta fásinna, að eigi sje unt að koma slíkum forðabúrum upp vegna stríðsins. Það er einmitt vegna stríðsins aukin ástæða til að koma þeim upp og sjá um, að ekki falli stofn. Ef nokkurn tíma hefir riðið á að setja varlega á, þá er það nú. Hvar stöndum vjer, ef fjárstofn fellur í vor? Það er mikið rjett, að ekki er hægt að koma upp heyforðabúrum nú í ár. En hefði nefndinni þóknast að vinna sleitulaust að málinu og flýta því, hefði vel mátt setja bráðabirgðaákvæði í lögin um dálítinn forða til vara næsta vor. Þar sem allir vita, að nú er engin hrossasala, og ágóði lítill af kjötsölu, má búast við, að menn setji djarfar á nú en nokkru sinni áður, og getur þá vel orðið fjárfellir í vor, af því að enginn gætir sín, og aldrei má samþykkja neitt annað en eitthvert ónýtt samþyktaþvaður, sem aldrei er framkvæmt. En sú vitra landbúnaðarnefnd sefur vært, og verður úrill, ef ýtt er við henni.

„Syngi, syngi svanir mínir,

svo hann Hlini vakni“.

En hjer mun meira við þurfa.

„Hringli, hringli horbein

hátt, svo nefndin vakni.

Svo getur og farið hjer, og ann jeg þá landbúnaðarnefndinni að vakna við vondan draum.