03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í C-deild Alþingistíðinda. (2766)

104. mál, heyforðabúr og lýsisforðabúr

Frsm. (Jón Jónsson):

Landbúnaðarnefndin tekur sjer varla nærri, þótt háttv. þm. Dala. (B. J.) láti geðvonsku sína bitna á henni; það hefir hann oft gert áður, og nefndin stendur jafnupprjett eftir sem áður.

Nefndin sá það auðvitað í hendi sjer, að hún gat gert breytingar á frv., svo að það yrði aðgengilegra en nú, en eins og jeg gat um áðan er nefndin móti þeirri stefnu, er þar kemur fram; vill ekki skylda menn þannig. Fann hún því enga ástæðu til að gera breytingar á frv., og lagði því til, að það yrði felt. Það var alment álitið í nefndinni, að þingið ætti ekki að gera annað en að hvetja menn til að gá að sjer og sjá sjer farborða. Það hefir nú verið samþykt hjer í deildinni þingsál.till. um, að sveitarstjórnir skuli sjá um þetta. Það er sú rjetta stefna, og jeg er sannfærður um, að markið næst langbest með þessu móti. Það er alger misskilningur, að svona lög geri gagn. Sjá allir, hvernig gengur með þau lög í landinu, er ganga nærri frelsi einstaklingsins og rjetti. Hvernig gengur með bannlögin t. d.? Svipað er um forðagæslulögin, og getur þó varla heitið, að þau gangi nærri rjetti manna, í samanburði við þetta frv. Ef mönnum finst sjer misboðið með einhverjum lögum, neita þeir gersamlega að hlýða lögunum. Það ætti hv. þm. Dala. (B. J.) að sjá, að það er óheppilegt að setja landsmönnum þau lög, er þeir sjá sjer ekki fært að hlýða. Og hversu sterk orð sem háttv. þm. Dala. (B. J.) hefir um þetta mál, er nefndin viss um, að menn munu ekki fella úr hor, þótt þeir fái að ráða sjer sjálfir, með eftirliti því, er forðagæslulögin kveða á um.