03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í C-deild Alþingistíðinda. (2767)

104. mál, heyforðabúr og lýsisforðabúr

Bjarni Jónsson:

Það er undarlegt, að nefndin vildi umsvifalaust fella frv., ef hún hefir ekki fundið annað að athuga við það en að það var gagnstætt þeirri stefnu, er hún hefir fylgt hingað til. Og ef stefnan er og hefir lengi verið sú, er frsm. (J. J.) segir, hvers vegna lá nefndin þá svo lengi á, hví gat hún ekki ungað út þessu viturlega nál. fyr, eða var hún svona lengi að leita að sinni eigin stefnu? Annars er það skrítileg löggjafarstefna, ef haft er móti lögum, eða þau brotin, að þá skuli hætt að setja lög. Þá getur Alþingi farið heim þegar, því að öll lög mæta einhverri mótspyrnu eða eru eitthvað brotin. Eftir þeirri meginreglu háttv. frsm. (J. J.) ætti engin lög að setja. En jeg hafði hugsað, að rjett væri, að löggjafarvaldið setti þau lög, er það teldi viturleg og góð fyrir framtíð þessa lands, en færi ekki eftir því, hvort allir hlýði þeim eða ekki. Auk þess vita allir, að ef framkvæmdarvaldið er í lagi, verður lögunum hlýtt. Það er ekki meira að hlýða þessum lögum en öðrum, og jeg ímynda mjer, að auðvelt sje að fá menn til að hlýða þeim.

Annars getur vel verið, að þessari mjög svo háttv. landbúnaðarnefnd sje sama, hvað þm. Dala. segir, en henni getur varla verið sama um skoðun Torfa heitins í Ólafsdal, sem ungur og gamall hafði brennandi áhuga á stofnun slíkra forðabúra. Þótt í þessari nefnd sitji miklir búspekingar, og geti talað háðulega um þingmann Dala., munu þeir ekki geta knjesett Torfa heitinn í Ólafsdal. Hann mun eiga mikil ítök í hugum manna, jafnvel þótt í móti skoðun hans sje ritað af annari eins ritsnild og fram kemur í nál.

Jeg hefi ekki tíma til að laga galla frv. til 3. umr., enda var það verk nefndarinnar, sem hún sveikst um. Læt jeg menn ráða, hvernig þeir greiða atkvæði, og uni því vel að standa nú einn, því að þá tel jeg því meiri líkur til, að Alþingi fallist á frv. næst er það kemur saman.