02.08.1917
Neðri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í C-deild Alþingistíðinda. (2770)

107. mál, merkjalög

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Mjer þykir hálfleitt, hve hjer eru þunnskipaðir bekkir, og allóviðfeldið, að þingmenn skuli gegna öðrum störfum meðan á þingfundum stendur.

Jeg skal taka það fram, að jeg er ekki höfundur nje upphafsmaður þessa frv., því að það er að mestu eða öllu leyti verk núverandi forseta Búnaðarfjelags Íslands. Jeg hafði ætlað mjer að flytja frv. um breytingu á gildandi landamerkjalögum, en hætti við það, þegar jeg var beðinn að flytja þetta frv.

Það eru aðallega tvær ástæður fyrir þessu frv. Önnur sú, að landamerki milli jarða eru víða úti um land í mestu óreiðu og hin, að sannvirði jarðanna verður fremur hægt að finna, ef frv. verður að lögum. Gildandi landamerkjalög eru frá 1882, og í þeim er gert ráð fyrir, að allur landamerkjaágreiningur skuli gerður upp innan 5 ára, að viðlögðum sektum. Þessi tími varð ekki nægilega langur, og þegar hann var liðinn, var skamt komið, svo að 1887 var lögunum breytt og 2 árum bætt við hinn ákveðna skyldutíma og sektirnar jafnframt ákveðnar tvöfaldar að honum loknum. Árangurinn af lögunum og breytingunni hefir ekki orðið annar en sá, að enn er ágreiningur um landamerki mjög víða og sektarákvæðum hefir aldrei verið beitt. Víða má segja, að þrætulöndin skifti ekki miklu máli, og er þar því nokkur ástæða fyrir hlutaðeigendur að hika við að leggja út í dýr málaferli. Annarsstaðar, þar sem meiru máli skiftir, vantar menn ábyggilegar heimildir, og verður því málshöfðunin í undandrætti.

Úr þessu vill frv. bæta, á þann hátt að skylda landeigendur til þess að gera upp landamerki sín fyrir vissan tíma, 1920, og jafnframt að losa þá við málshöfðun, en að sýslumenn stefni öllum ágreiningsaðiljum fyrir landamerkjadóm, sem útkljái málið. Hreppstjórar eru eftir frv. skyldir að sjá um, að menn geri upp merki sín og undirskrifi merkjalýsingu, og held jeg, að það hafi mjög mikla þýðingu, að því leyti, að mikið af hinum smærri ágreiningi myndi gerast upp fyrir þeirra tilstilli, til þess að komast hjá málarekstri og kostnaði. Jeg get nefnt dæmi þess úr mínum hreppi, að 2 bændur komu sjer saman um, að hreppstjóri skyldi gera út um landamerkjaágreining þeirra. Jeg hygg því, ef hreyfing kemst á þetta mál, í þessa átt, að þá muni mikið lagast, án þess að til málaferla þurfi að koma, og er þá óneitanlega mikið unnið. Hve miklu þetta skiftir viðvíkjandi mati á jörðum er auðvelt að sýna. Matsmönnum er gert að skyldu að meta sjerstaklega öll þrætulönd, en nú getur svo hagað til, ef þau eru slægjulönd eða beitilönd, að önnur jörðin, sem á hlut að máli, sje beitarlaus eða slægjulítil. Nú meta matsmenn þrætulöndin eftir almennu gildi þeirra, án þess að taka tillit til þess, að þau geta verið miklu meira virði fyrir aðra jörðina en hina, því að þeir eiga þar ekki að dæma um rjettmæti ágreiningsins. En sú jörðin, sem vantar tilfinnanlega þau gæði, sem í þrætulandinu eru fólgin, verður tiltölulega oflág í mati. Og hin jörðin, sem ekki þarfnast þess, hækkar ekki að sami skapi. Það má segja það galla á frv. þessu, að það sje ekki komið áður en jarðamat fer fram, og jarðirnar verði því að þessu leyti með fölsku mati. En það er þó ekki nema takmarkaðan tíma, þar til búið er að jafna þetta, sem sje við næsta jarðamat eftir það, sem nú stendur yfir.

Af þessu, sem jeg nú hefi sagt, er það augljóst, að þessi ákvæði frv. bæta mjög úr og gera enda á því ólagi, sem nú er á í þessum efnum. Þótt nú ætti að fara að beita gömlu sektarákvæðunum, yrði það bæði óeðlilegt og sektirnar gífurlega háar, því að þær hafa nú safnast í ein 27— 28 ár. Það er vitanlega að kenna vanrækslu frá sýslumanna hálfu, en um það þýðir ekki að sakast. Það er ýmislegt í frv., sem mætti breyta; jeg er ekki ánægður með það alt, en tel ekki ástæðu til að fara frekar út í það við þessa umræðu málsins, en vil leyfa mjer að stinga upp á, að því verði vísað til allsherjarnefndar. Jeg skal reyndar játa, að þetta er landbúnaðarmál, en það er svo margt í því rjettarfarslegs eðlis, að jeg treysti miður landbúnaðarnefnd, sem engir lögfræðingar eru í, til að fjalla um málið. En í allsherjarnefnd eiga sæti 2 góðir lögfræðingar.