02.08.1917
Neðri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í C-deild Alþingistíðinda. (2773)

107. mál, merkjalög

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg skal stuttlega svara hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) Jeg tók það fram áðan, að sum atriði frv. gæti jeg ekki felt mig við, og má vel vera, að breyta mætti þinglýsingarákvæðinu. En hvað það snertir, að þinglýsingu landamerkja hafi alment verið framfylgt, þá get jeg ekki verið á sama máli. Jeg þekki til á Norðurlandi. Þar mun það ekki vera óvíða, sem trassað hefir verið að fara eftir ákvæðum laganna, bæði um þinglýsingar og viðhald merkja. Sömuleiðis talaði jeg við mann hjeðan af Suðurlandi um daginn. Hann sagði vera ágreining um landamerki mjög víða hjer, gat upp á svo sem á annari hverri jörð, og þótti mikils um vert, ef lög um þetta hefðu náð gildi áður en matið byrjaði.

Hitt, sem hann (M.G.) tók fram, að þýðingarlaust væri að þinglýsa aftur því, sem áður hefir verið þinglýst, er alveg rjett, þar sem enginn ágreiningur er.

Mjer þykir það sitja illa á hv. þm. S.-Þ. (P. J.) að koma fram með ákúrur út af greinargerð þessa frv., þegar hann var ekki inni til að hlusta á ræðu mína, þar sem jeg gerði grein fyrir frv. Og jeg vil því, eins og hann, skjóta máli mínu til hæstv. forseta og biðja hann að sjá um, að menn sitji á þingfundum.

Annars má lengi deila um það, hve nær greinargerð sje fullkomin eða ekki. En ekki situr það frekar á hv. þm. S.-Þ. (P. J.) en öðrum að finna að greinargerð þessa frv. Greinargerðirnar eru oft, ekki síður hjá honum en öðrum, tómur hjegómi, að eins til þess að fylgja ákvæðum þingskapanna. Og ekki get jeg gert hv. þm. (P. J.) það til geðs að taka neitt upp aftur af því, sem jeg hefi um málið sagt, en vísa að eins til þess. Jeg hefði getað tekið þessa vandlætingu vel upp af ýmsum hv. þingmönnum, en af hv. þm. S.-Þ. (P. J.) get jeg það ekki. Jeg býst við, að ýmsar breytingar muni gerðar á frv. í nefndinni og kippi mjer ekkert upp við það. En jeg held, að frv. sje veruleg bót frá því, sem nú er.