02.08.1917
Neðri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í C-deild Alþingistíðinda. (2774)

107. mál, merkjalög

Pjetur Jónsson:

Jeg sje ekki, að hv. flm. (Þór. J.) hafi hrakið neitt af því, sem jeg sagði. Jeg hjelt því fram, að forseti yrði að ganga eftir því, að þingsköpin væru haldin, og jeg skal bæta því við, að hann verður fremvegis að vísa frá slíkum frv. sem þessu, því að það er alveg óhæfilegt að demba greinargerðarlausum frv. hjer inn á þingið, þvert ofan í fyrirmæli þingskapanna. Það er ekki ofmikið heimtað af neinum, sem flytur mál inn á þingið, að hann ljetti þingmönnum sem mest fyrirhöfnina að setja sig vel inn í málið. Það er beint sparnaður á tíma og kröftum. Jeg vil segja það, að greinargerðin fyrir þessu frv. er alveg engin. Hjer er ekki einu sinni skýrt frá því, að til sjeu áður lög um þetta efni, hvað þá að skírskotað sje til þeirra laga, nje sýndur munurinn á þeim og þessu frv.

Jeg hefi ekki haft tíma til að bera frv. þetta saman við merkjalögin, og get því lítið sagt um efni þess. Jeg sje, að dómnefnan er önnur samkvæmt þessu frv. en eftir lögunum, en jeg get ekki sjeð, að þetta fyrirkomulag sje miklu umsvifaminna eða á nokkurn hátt betra en áður var. Jeg skal játa það, að landamerkjalögin frá 1882 voru ekki nógu fullkomin, en jeg sje ekki, að þetta frv. bæti fyllilega úr göllum þeirra. Það, sem með þarf, er strangara eftirlit með því, að tilgangi merkjalaganna sje fullnægt, þ. e. að koma á ótvíræðum landamerkjum. En ákvæði frv. í þessa átt virðast mjer mjög ófullkomin.

Eitt er alveg áreiðanlegt. Þetta frv þarf mikillar athugunar við í væntanl. nefnd, hver sem hún verður, því að málið er mikilsvert.