04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í C-deild Alþingistíðinda. (2782)

107. mál, merkjalög

Frsm. minni hlutans (Stefán Stefánsson):

Eins og nefndarálit okkar minni hlutans ber með sjer gátum við hvorki fallist á frv. á þgskj. 162, nje heldur á brtt. meiri hluta nefndarinnar við frv. Við álitum sem sje enga þörf á að skrifa upp öll merki, þar sem landamerkjaskrár eru til, þinglýstar og undirskrifaðar af öllum aðiljum. Þetta álitum við svo mikla fyrirhöfn, og hana alls óþarfa, að fara að gera að nýju allar landamerkjaskrár í landinu, hvort sem nokkur ágreiningur er um merkin eða ekki, að slíkt geti ekki til mála komið. Almenningur mundi ekki taka því með þökkum að vera neyddur til þess að standa í svo tilgangslausu starfi þegar ekkert væri um að deila eða við að gera. Jeg veit það að vísu, að á nokkrum stöðum, og það sjálfsagt á nokkuð mörgum stöðum á landinu, er ágreiningur um landamerki, sem þarf að jafna. En hinir staðirnir, eða þær jarðirnar, eru þó langtum fleiri, þar sem ágreiningurinn er enginn, að líkindum í 9 tilfellum af 10 eða jafnvel enn fleirum, og það er mjer t. d. kunnugt, að í minni sveit er merkjaágreiningurinn að eins á milli tveggja jarða, og þar af leiðandi mundi því verða mjög misjafnlega tekið í minni sveit, ætti nú að fara að skrifa upp allar landamerkjaskrár. En ef nema ætti þetta ákvæði burt úr frv., þá þyrfti að gera svo gagngerðar breytingar á því, að líklega yrði ekki hjá því komist að búa til nýtt frv., en til þess vanst okkur ekki tími að þessu sinni, og af þessari ástæðu fórum við ekki heldur eins nákvæmlega út í athugun einstakra greina í frv., þar sem við litum svo á, að ekki gæti komið til mála að skylda menn til að gera nýjar merkjalýsingar, sem áður væru glöggar og ágreiningslausar, því að þótt það yrði gert, þá er ekki öldungis víst, að liði á mjög löngu áður en ágreiningur risi upp á ný. Merkjavörður geta hrunið eða eyðilagst og ágreiningur orðið um örnefni, og menn því orðið í vafa um, hvar eða hver þau merki eru, sem lýsingin á við, en þá er ástæða fyrir hvern, er hlut á að, að láta gera merkjaskrá á ný. Við höfum því, af nefndum ástæðum, lagt til, að frv. verði felt. En sjáist einhver leið til að breyta því, svo að við megi hlíta, eða vísa því til stjórnarinnar, þá munum við ekki verða því mótfallnir.