04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í C-deild Alþingistíðinda. (2784)

107. mál, merkjalög

Þorleifur Jónsson:

Jeg játa, að það sje rjett og nauðsynlegt, að löggjöfin geri gangskör að því, að sem fyrst verði gert út um þau landamerki, sem enn er ólokið við. Það er mjög leitt, að það skuli hafa dankast svo, að landamerkjalögunum frá 1882 hefir eigi verið hlýtt. Mjer skilst, að þetta frv. hefði verið gott, ef það hefði fólgið í sjer viðbót við landamerkjalögin, með tilliti til þeirra merkja, sem enn eru óútkljáð og ágreiningur er um. En jeg hygg, að hjer sje altof langt farið, að ætlast til þess, að farið verði að róta upp í öllum landamerkjum, og það þeim, sem allir eru ásáttir um, eru undirskrifuð og þinglesin og enginn ágreiningur er um. Jeg álít það alveg ótækt að gefa út fyrirskipanir um að gera það sama á ný; það getur leitt af sjer margskonar glundroða, sem ómögulegt er að gera grein fyrir í skjótri svipan. Það getur gefið þrætugjörnum mönnum tilefni til þess að færa sig upp á skaftið við nágranna sína og sölsa undan þeim land, ef minna máttar eru.

Mig furðar á því, að nefndin skuli ekki í svo merkilegu máli hafa komið sjer saman um að laga frv. í þá átt, sem hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) benti til. Þessi mikli lagabálkur, eins og hann er, held jeg að mest verði til þess að gera glundroða.

En þrátt fyrir það mun jeg greiða atkvæði með því, að frv; verði vísað til 3. umr., í þeirri von, að frv. verði bætt, þannig að það nái að eins til merkja, sem ágreiningur er um. En ef ekki verður lagað á þann hátt, þá er jeg efins um, að jeg geti greitt því atkv. lengur.