04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í C-deild Alþingistíðinda. (2785)

107. mál, merkjalög

Frsm. minni hl. (Stefán Stefánsson):

Það er raunar eðlilegt, að menn furði sig á því, að nefndin hefir ekki getað komið sjer saman um svo einfalt mál. En meiri hlutinn var þegar þeirrar skoðunar að fylgja fram frv. að eins með smávægilegum breytingum, og var það svo mikill skoðanamunur, að engin tök voru á því að geta unnið saman í nefndinni. En þar sem stungið hefir verið upp á því að taka málið til nýrrar athugunar til 3. umr., þá hygg jeg heppilegra að taka málið nú þegar út af dagskrá, í von um, að hv. meiri hluti nefndarinnar geti horfið frá því, að allar landamerkjaskrár sjeu gerðar upp að nýju, hvort sem nokkur veruleg ástæða er til þess eða ekki, því að það er óbreytt skoðun okkar, minni hlutans, að ókleift sje að afgreiða það, eins og það liggur fyrir með brtt. meiri hlutans.

Það er því ósk mín, að frv. verði tekið út af dagskrá, nú við þessa umræðu.