06.09.1917
Neðri deild: 53. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í C-deild Alþingistíðinda. (2790)

107. mál, merkjalög

Magnús Guðmundsson:

Jeg man ekki til að hv. framsm. landbúnaðarnefndar (P. Þ.) hafi vikið að því í ræðu sinni, að meðferð landamerkjamála er mikið breytt eftir þessu frumvarpi frá því sem nú er. Jeg vil því benda á nokkur atriði í þessu máli, sem jeg tel ekki að sjeu til bóta. — Fyrst vil jeg benda á það, að það sjest ekki neitt í þessu frv., sem bendir á, að ætlast sje til, að leita eigi sátta í landamerkjamálum. Það virðist helst vera meiningin, að ekki eigi að leita sátta. Þetta tel jeg heldur galla á frv., fyrir þá sök, að það kemur ekki ósjaldan fyrir, að aðiljar sættast einmitt í þesskonar málum.

Eftir frv. er svo að sjá, sem tilætlunin sje, að að eins sýslumaður sje við þau rjettarhöld í landamerkjamálum, sem vitni eru leidd í eða skifst á innleggum, og á merkjagangan ekki að fara fram fyr en allri málsfærslunni er lokið, og við hana eru að sjálfsögðu allir dómendur.

Þetta er breyting frá því, sem nú er, því að það er nú svo, að merkjagangan fer fyrst fram, í staðinn fyrir að hjer er ætlast til, að hún verði síðast. Eftir minni reynslu er þessi breyting mjög til hins verra, því að, eins og kunnugt er, er mjög ilt að átta sig á landamerkjamálum, nema með því að koma á staðinn og kynna sjer örnefni og annað, sem máli skiftir. Að vísu getur það bætt mikið úr skák, ef menn eiga völ á góðum uppdrætti af staðnum, en slíkur uppdráttur er sjaldnast fyrir hendi.

Ef frv. á að ganga fram, er að minni hyggju alveg nauðsynlegt að breyta þessu í það horf, sem nú er, þannig að merkjagangan komi fyrst og rekstur málsins á eftir. En verði mörg rjettarhöld eftir merkjagönguna, virðist mjer, að vel mætti ákveða, að meðdómendur væru eigi við þau, sjerstaklega ef að eins er skifst á skjölum og lögð fram sókn eða vörn. Við vitnaleiðslur er aftur á móti best, að allir dómendur sjeu til staðar.

Þá skal jeg drepa á ákvæði í 12. gr. um frestinn til að áfrýja merkjadómi. Það er hjer gert ráð fyrir, að hann sje 12 mánuðir, eins og í núgildandi lögum. Þetta finst mjer vera óþarflega langt, Jeg fæ ekki betur sjeð en að það sje nægilegt að hafa hann 6 mánuði, eins og í öðrum málum. Hitt er ekki til annars en að tefja málið meir en þörf er á. Auk þess gildir sú sjerstaka regla um landamerkjamál, að þeim er vísað til nýrrar meðferðar í hjeraði, ef yfirrjettur felst eigi á hjeraðsdóm, og þá tefur þessi langi frestur enn meir fyrir framgangi málsins. Mjer finst rjett að taka þetta fram, fyrst að verið er að breyta lögunum á annað borð, því að þessu ætti þá að breyta líka.

Þá eru breytingarnar á þgskj. 799, og eru þær til talsverðra bóta. En þó get jeg ekki felt mig við allar þessar breytingar. Hjer stendur t. d.: „Nú verður samkomulag um breytingar á merkjum milli þeirra, er á hefir greint, og senda þeir hreppstjóra þá merkjalýsingu, en hann sendir hana sýslumanni til þinglestrar á næsta manntalsþingi“. Við þetta er ekkert að athuga. En svo stendur: „Senda skal hreppstjóra merkjalýsingu, þar sem ágreiningur er um merki, þótt ekki hafi orðið samkomulag“. Í þessu er mótsögn, því að hvernig á að senda merkjalýsingu, svo framarlega sem aðiljar eru ósamþykkir um merki?

Merkjalýsing hefir enga þýðingu nema hún sje samþykt af aðiljum; ef svo er eigi, er að eins um kröfur þeirra að ræða, sem óvíst er um, að hverju leyti eiga að teljast rjettar.

Þetta er því alveg óþarft. Svo kemur síðasta setning í síðustu málsgrein: „Sá, er ekki sendir merkjalýsingu í tíma, skal sæta tveggja króna dagsektum, uns úr er bætt“. Nú skulum við segja, að hann geti ekki fengið samkomulag við þann, er land á til móts við hann, er þá rjett að skylda hann til að senda merkjalýsingu? (J. J.: Hann þarf ekki samkomulag.) Hvað á merkjalýsingin þá að gera? Hún er þá bara villandi. Svo dugir ekki að binda þetta við dagsektir; það verður að vera sú takmörkun á, að menn verði að vera búnir að koma með merkjalýsinguna innan ákveðins tíma. Það má ekki ganga út frá því, að allir þekki þessi lög, og því ofhart að beita sektum án aðvörunar á undan.

Jeg held því, að rjettast sje að samþykkja þessa till. hv. þm. S.-Þ. (P. J.), um að vísa málinu til stjórnarinnar, og losna þannig við frv., því að bæði hefi jeg enga von um, að það geti gengið fram á þessu þingi, og að öðru leyti er það svo úr garði gert, að það á ekki skilið að ganga fram.