06.09.1917
Neðri deild: 53. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í C-deild Alþingistíðinda. (2791)

107. mál, merkjalög

Sveinn Ólafsson:

Jeg get að mestu leyti vísað til þess, sem hv. þm. S.-Þ. (P. J.) og hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) hafa tekið fram um þetta mál. Mjer finst undirbúningur málsins nokkuð losulegur, og jafnframt lít jeg svo á, að, eins fyrir brtt. hv. meiri hl. landbúnaðarnefndar, sje varhugavert að samþykkja frv. Jeg veit að vísu, að víða úti um land eru landamerki ógreinileg og hafa gengið úr sjer, hafa fyrnst síðan þau voru þinglesin, og er víða ágreiningur um þau, en það er ekki næg ástæða til þess að lögbjóða það feiknaverk, sem frv. ráðgerir.

Ef víða er svona ástatt, er auðvitað full þörf að ráða bót á því, en jeg held, að þetta sje ekki heppileg leið. Jeg hallast þá heldur að því, sem hv. þm. S.-Þ. (P. J.) sagði, að rannsaka fyrst og fremst, hve mikil brögð eru að þessum merkjaágreiningi. Sjálfsagt virðist mjer líka, þegar lög eru sett um þetta efni, að tryggja betur en gert hefir verið viðhald merkjanna, svo að ekki þurfi að endurtaka á fárra ára fresti annað eins verk og unnið var 1884—1890. Jeg verð því að taka undir það með hv. þm. S.-Þ. (P. J.), að vísa beri málinu til stjórnarinnar og afgreiða það ekki frá þinginu að þessu sinni.

Jeg gæti til viðbótar því, er hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) tók fram, sagt, að í 1. gr. er ákvæði, sem mjer virðist nokkuð hált. Það er ákvæðið, sem segir fyrir um viðhaldsskyldu landamerkja. Þar segir, að umsjónarmenn jarða, sem ekki eru einstakra manna eign, skuli halda landamerkjum við. Mjer skilst eftir því, að á öllum opinberum jörðum sjeu hreppstjórar eða umboðsmenn skyldir til að halda merkjunum við, gera vörður, grafa skurði o. s frv. Jeg hygg, að þetta sje þó ekki tilgangurinn frá upphafi, heldur að landeigandi eigi að gera þetta. Það væri að minsta kosti óeðlileg kvöð, ef umsjónar- eða umboðsmenn jarða ættu að hafa slíkt á hendi kauplaust. En þetta er þó að eins minni háttar smíðalýti.

Svo er þetta, sem jeg drap áður á, að í þessu frv. er hvergi nægilega gert ráð fyrir stöðugu og tryggilegu viðhaldi merkjanna. Í brtt. á þgskj. 799 reynir hv. landbúnaðarnefnd að gera þá bragarbót, að undanskilja allar jarðir, þar sem landamerki eru ágreiningslaus og áður þinglesin. En það er aðgætandi, að þótt landamerkin sjeu í svipinn ágreiningslaus og þinglesin, þá er það víst, að ágreiningurinn liggur í loftinu, og kemur upp þegar minst varir, af því að landamerkin eru óglögg. Hitt er líka, að til eru þinglesin landamerki, er ekki hafa hlotið undirskrift allra, er hlut eiga að máli, og því tæplega lögum samkvæm. Og landamerkin geta verið ólöglega þinglesin, þótt sýslumenn viti ekkert um það.

Út af öllu þessu hefir mjer komið til hugar að bera fram svo felda rökstudda dagskrá:

„Í því trausti, að stjórnin, fram til næsta reglulegs þings, rannsaki

nauðsyn á endursamningu landamerkjalaga, og leggi frv. um það efni fyrir þingið, ef nauðsyn virðist á vera, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.