06.09.1917
Neðri deild: 53. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í C-deild Alþingistíðinda. (2795)

107. mál, merkjalög

Jón Jónsson:

Jeg geri ráð fyrir, að þetta mál nái ekki fram að ganga á þessu þingi, þar sem svo mjög er liðið á þingtímann. Samt hefði jeg álitið rjettara, að deildin reyndi að afgreiða það í einhverri mynd. En að fara að vísa því til stjórnarinnar, án þess að fyrir henni liggi vilji deildarinnar um aðalatriði málsins, álít jeg ekki rjett. Stjórnin getur ekki vitað í neinu vilja deildarinnar, ef málið er afgreitt með rökstuddri dagskrá nú, án þess að atkvæðagreiðsla fari fram um breytingartillögur og einstakar greinar frv. Jeg held, að rjettara væri, að háttv. deild taki afstöðu til tillagnanna, sem fram hafa komið, og sýndi með atkvæðagreiðslu, hverja stefnu hún aðhyllist í málinu.

Eins og háttv. deildarmenn vita er aðalkjarni frv. að fá sem best gert út um ágreining um landamerki, og eins og hv. 2. þm. S.-M. (B. St.) tók fram stendur nú svo vel á, að jarðamat er að fara fram, og þá vekst ýmislegt upp, sem ella hefði legið í þagnargildi. Þá er nú einmitt færi á að fá útgert um mál þessi, öll um sömu mundir.

Annað aðalatriði er að tryggja með lögum fullnægjandi viðhald landamerkja. Eftir gömlu lögunum hefir þetta verið algerlega eftirlitslaust, en það er auðsætt, að nauðsynlegt er eftirlit með því, að þessi merki sjeu sem greinilegust, til þess að útiloka deilur síðar.

Það er hjer ein brtt., á þgskj. 799, sem borin er fram í nafni landbúnaðarnefndarinnar. Jeg skal geta þess um hana, að jeg á mestan þáttinn í henni, og hafði jeg ekki tíma til að bera mig saman við hv. samnefndarmenn mína, svo að vel getur verið, að þeir verði henni ekki allir samþykkir. Þar er ekki gert ráð fyrir að þinglýsa öðrum merkjum en þeim, sem ekki hafa áður verið þinglesin. Þinglýsa á þó áður þinglesnum landamerkjum þar, sem ágreiningur hefir verið og hlutaðeigendur koma sjer saman um breytingar á merkjum. Þá er einnig gert ráð fyrir, að sá, sem ekki sendir merkjalýsingu í tíma, skuli sæta tveggja króna dagsektum, uns úr er bætt. Þetta ákvæði er þægilegt fyrir hreppstjóra, til þess að þeir geti látið þá menn, sem ekki hlýða lögunum, hafa dálítið aðhald.

Háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) hafði ýmislegt að athuga við brtt. á þingskjali 799. Jeg bjóst við, að hann myndi sætta sig allvel við hana. Okkur fanst það „praktiskt“ og líklegt til samkomulags að falla frá þinglestri ágreiningslausra merkja, er þinglesin hafa verið, nauðsynlegt að fá þinglesin öll landamerki og sömuleiðis nýjan þinglestur um ágreiningsmerki, er sátt og samkomulag hefir komist á um, með breytingum, frá því sem áður var, án þess að til merkjadóms þurfi að koma. Og ákvæðið um að senda skyldi hreppstjóra merkjalýsingu, þótt ekki hefði orðið samkomulag, settum við inn til þess, að hann þyrfti sem minst fyrir að hafa. Dygði þá, að að eins einn hlutaðeigandi sendi merkjalýsingu; þá er ekki um annað að gera en að sýslumaður stefni hlutaðeigendum. Aðalatriðið í frv. er það, að hlutaðeigendur skuli vera neyddir til að gera út um landamerkjaþrætur sínar á löglegan hátt.

Mjer liggur það í ljettu rúmi, hvað deildin gerir við þetta mál nú, en rjettast þætti mjer, að hún reyndi að laga það og færa það í það form, sem hún vildi hafa á því og láta svo efri deild um það, hvort hún vildi samþykkja það eða vísa því til stjórnarinnar. Ef deildin gerði það og hv. Ed. vísaði því svo til stjórnarinnar, þá vissi þó stjórnin, hver væri vilji Nd. í málinu. Þetta hygg jeg vera rjettustu leiðina. Hitt væri verra, að láta málið daga uppi í nefnd, því að þá hefði stjórnin enga hvöt til að koma fram með álit sitt í málinu fyrir næsta þing. Mjer virðist, að málinu eigi að vera svo fyrir komið, að stjórnin sjái fyllilega, hver er vilji deildarinnar.

Og nauðsynlegt er, að málið komi fyrir næsta þing, ef það dagar nú uppi af undirbúningsskorti og tímaleysi.