06.09.1917
Neðri deild: 53. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í C-deild Alþingistíðinda. (2801)

107. mál, merkjalög

Einar Arnórsson:

það er þegar búið að ræða þetta mál allmikið hjer í deildinni. Jeg stend að eins upp til að taka í sama streng og hæstv. atvinnumálaráðherra. hvað snertir traustið á honum sjálfum. Hann sjálfur, persónulega, hefir ekki betri skilyrði til að láta sjer þetta mál vel úr hendi fara en hv. landbúnaðarnefnd. Það væri sama að vísa þessu máli til hans eins og að fela mjer að semja frv. um böðun sauðfjár. En þegar einhverju máli er vísað til stjórnarinnar, þá er því ekki vísað til neins sjerstaks manns í stjórninni, heldur til stjórnarinnar í heild sinni. Nú er svo ástatt, að tveir lögfræðingar eru í stjórninni, forsætisráðherra, sem hingað til hefir ekki verið álitinn slakur lögfræðingur, og fjármálaráðherrann. Báðir hafa þeir verið dómarar, og eru því nákunnugir meðferð mála. Stjórnin gæti líka leitað aðstoðar til yfirdómsins — það hefir oft verið gert áður — eða lagadeildar Háskólans, eða þá Búnaðarfjelagsins. Jeg skal þó geta þess að í þessu efni hefi jeg enga trú á Búnaðarfjelaginu. Það hefir enga sjerþekkingu á rjettarfarsákvæðum. Sá misskilningur hefir ríkt hjer í deildinni, að þetta sje landbúnaðarmál. En svo er ekki. Það er „processuelt“. Það er því ekkert vantraust á hæstv. atvinnumálaráðherra eða Búnaðarfjelaginu, þó að jeg haldi því fram, að hann eða fjelagið kunni ekki með það að fara. Þetta mál er fyrir utan hans verksvið. En það væri vantraust á stjórninni í heild sinni að þora ekki að vísa því til hennar.

Hv. 1. þm. N.-M. (J. J.) virtist telja það skyldu mína að laga þetta frv. Hefði það komið í nefnd, þar sem jeg hefði verið, þá hefði það verið skylda mín. En nú var ekki svo, svo að það var ekki skylda mín, fremur en annara, að lagfæra frv. Það væri líka ofætlun að ætla okkur allsherjarnefndarmönnum meira en það, sem nefndinni er sent. Henni hafa borist um 40 mál. Nú er festum skilað, en hin eru á leiðinni. Meiri hluti málanna er þegar genginn í gegnum deildina. Hv. þm. (Þór. J.) sýndi mjer að vísu frv., og er það rjett eftir mjer haft, að jeg hafi talið það þurfa ýmsra breytinga við.

Háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) benti á ýms atriði í frv., er eigi fengju staðist Jeg skal enn benda á það, að í 13. gr. frv. er fullkominn misskilningur á 13 gr. landamerkjalaganna. Ef hún er borin saman við 17. gr., er það auðsjeð, að hún fær ekki staðist. Þetta liggur í því, að 7. gr. landamerkjalaganna hefir ekki verið nægilega athuguð. En með því að jeg býst við, að málinu verði vísað til stjórnarinnar, skal jeg ekki fara nánar út í þessi atriði. En ef málið skyldi fá að ganga til 3. umr., þá gefst kann ske tími til að athuga sjerstaklega, að ekkert verður sjeð af frv. um það, hvernig fara skuli með mál, sem rísi út af ágreiningi um ítök. En nú eiga sum slík mál að sæta sama dómi og landamerkjamál.

Ef athuga ætti þetta mál eins og þörf er á, þá mundi ekki nægja sá tími, sem eftir er þingsins. Í umræðunum hefir komið fram sú leiðinlega skoðun, að afgreiða megi málið í því trausti, að efri deild lagaði frv. eða svæfði það. En hver á það víst, að háttv. Ed. geri annaðhvort af þessu? Það eru dæmi til, að Ed. hefir á þessu þingi afgreitt frv., sem allir Nd. þingmenn töldu fela í sjer stjórnarskrárbrot. Það var lagað hjer og endurbætt, og voru þó ýmsir, sem ekki töldu það boðlegt, þrátt fyrir það. Jeg þarf víst ekki að nefna það, að jeg á við frv. um útmæling lóða, sem var hjer nýlega á ferðinni. Þetta ætti að vera næg viðvörun, svo að önnur deildin fari ekki að afgreiða nein mál í því trausti, að hin bæti úr göllunum. Það eru ekki nema tvær leiðir; annaðhvort er að samþykkja dagskrána, eða laga frv. svo, að skammlaust sje að láta það frá sjer fara. Hvorugt er mjer kappsmál, en jeg hallast fremur að því, að dagskráin verði samþykt. Jeg get ekki talið, að það sje ofætlun stjórninni að afgreiða það fyrir næsta þing.