06.09.1917
Neðri deild: 53. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í C-deild Alþingistíðinda. (2802)

107. mál, merkjalög

Frsm. meiri hl. (Pjetur Þórðarson):

Jeg býst við, að fyrir mörgum deildarmönnum vaki hið sama og kom fram hjá hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að ekki muni á þessu þingi vinnast nægur tími til að athuga þetta mál nógu rækilega. Hann (Sv. Ó.) virtist ekki treysta sjer til að segja, hvað að væri. Hann lagði því til, að því væri vísað til stjórnarinnar, án frekari athugasemda.

En jeg get ekki látið vera að tala dálítið um málið sjálft. Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) bjóst við því, að eitthvað væri hægt að græða á fasteignamatinu til undirbúnings þessa máls. En það var einmitt fyrir afskifti mín af fasteignamatinu, sem jeg komst að raun um, að þetta mál væri það nauðsynjamál, sem það er. Þessu máli þarf að koma í kring, svo að fasteignamatið geti farið vel úr hendi. Fasteignamatið á ekki að vera til undirbúnings þessu máli, heldur á þetta mál að vera til undirbúnings fasteignamatinu.

Háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) talaði um málið sjálft og kannaðist við, að frv. hefir tekið bótum hjá nefndinni, en var þó ekki alls kostar ánægður með það. Jeg get þó samt verið honum þakklátur fyrir það, hve lítið hann hafði við málið að athuga, eins og það kom frá nefndinni, og vel er hægt að kippa því, sem hann drap á, í lag, ef ekki stendur annað málinu fyrir þrifum. Hann kvartaði yfir, að ekki hafi komið fram í framsögu málsins ástæðurnar fyrir því, hvers vegna væri verið að breyta meðferð merkjamála. Í frv. er það sem sje falið dómara að hefja málið, en ekki aðiljum, eins og áður hefir verið. Háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) benti á ástæðurnar fyrir því, og þarf jeg ekki að svara því frekar.

Í staðinn fyrir sáttatilraunirnar, sem áður voru, koma í frv. samkomulagstilraunir og eftirlit hreppstjóra, og er það trúa mín, að hreppstjóri muni oft geta komið því til leiðar, að sæst sje á smærri ágreining, sem ekki borgar sig að stofna til málaferla út af. Eftir því, sem mjer skildist, var þetta aðalgallinn, sem hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) fann á frv. Annars fann hann líka að því, að fresturinn væri óþarflega langur. Jeg skal játa hreinskilnislega, að meiri hluti nefndarinnar lagði aðaláhersluna á að leiðrjetta hina npraktisku“ hlið þessa máls, en aftur minni áherslu á hið rjettarfarslega. Jeg fyrir mitt leyti geri meira úr eftirliti hreppstjóra og samkomulagstilraunum hans en hinu, að mönnum væri stefnt fyrir sáttanefnd.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) taldi vafaamt, hvort rjett væri að gera umboðsmönnum það að skyldu að halda við landamerkjum. Sama ákvæði er í núgildandi lögum, en ekki er mjer kunnugt um, að nein óánægja hafi risið út af því. Annars var flest, sem þingmaðurinn sagði, endurtekning á nál. meiri hlutans.

Háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) sagði, að vitanlega væru sumar brtt. nefndarinnar til bóta, en það væri langt frá því, að svo væri um allar. Mjer þykir þetta koma úr hörðustu átt, þar sem honum hefði verið innan handar að koma að hjá nefndinni þeim tillögum og leiðrjettingum, sem honum hefði þótt með þurfa.

Það er um mig, eins og háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að mjer er það áhugamál, að bætt verði sem fyrst og sem best úr þeim vandræðum, sem stafa af ágreiningi um landamerki. Það er nauðsynlegt, að allar merkjadeilur verði útkljáðar áður en fasteignamatið er um garð gengið, því að það verður lagt til grundvallar nýjum skattakerfum. Það er kann ske ofmikið að búast við, að málið nái fram að ganga á þessu þingi. En það ætti að gilda einu, hvaða leið er farin, ef málið hefst samt fram, og því er flýtt eins og fært er.