14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í C-deild Alþingistíðinda. (2810)

115. mál, tollalög fyrir Ísland

Frsm. (Hákon Kristófersson):

Jeg hefi ekki mikið að athuga við ræðu hv. flm. (J. Bj. Jeg fyrir mitt leyti er honum alveg sammála um rjettmæti sykurtollsins, og án þess þó, að jeg hafi nokkra heimild til þess frá fjárhagsnefndinni að lýsa yfir því, þá býst jeg við, að hún sje það líka í heild sinni. Jeg játa það, að þessi tollur kemur harðast niður á þurrabúðarmönnum og kaupstaðarbúum, sem ekki hafa mjólk nema af mjög svo skornum skamti. En þegar til þess er tekið að afnema einhvern tekjustofn, þá verður að finna einhvern annan í staðinn, nema því að eins, að sjáanlegt sje, að landssjóði stafi ekki mikil hætta af tekjumissinum, en fyrst að það er nú ekki hægt sem stendur, þá verður að búa við það, sem er, þótt einhver missmíði kunni að vera á því. — Hjer er ekki um neinar stóratvinnugreinar að ræða, sem lagt verði á, svo að nokkru nemi, og því er oss nauðugur einn kostur að taka nauðsynjavörurnar. Hv. þm. (J. B.) mintist á stórgróðamennina og sagði, að þeir kæmust, frekar en ætti að vera, fríir við rjettláta skatta. Jeg skil ekki í því, að það sje rjett, svo framarlega sem skattanefndirnar gæta skyldu sinnar, því að vitanlega eiga þær kost á að ná til slíkra manna, því að þær geta sett þá í skatt, svo háan skatt, er þær álfta frekast fært, ef þær vilja. Verði skattgreiðandi óánægður með áætlun skattanefndar, á hann þess kost að gera fullnaðargrein fyrir tekjum sínum. Hv. þm. (J. B.) sagðist hafa búist við því, að fjárhagsnefndin mundi koma fram með breytingar á skattalöggjöfinni. Til þess hefir nefndinni ekki unnist tími enn, enda þarf slíkt mjög rækilegan undirbúning, og alls ekki rjettmætt að ætlast til þess, að fjárhagsnefnd gæti leyst slíkt af hendi, á þeim tíma, er hún hefir yfir að ráða. Þó þykist jeg geta lýst yfir því, fyrir hönd nefndarinnar, að hún muni koma fram með einhverjar breytingar á skattalöggjöfinni. Hversu víðtækar þær verða get jeg ekki sagt um að sinni, enda brestur mig heimild nefndarinnar til þess að fara frekar út í það.

Jeg skal svo ekki fara fleirum orðum um þetta mál að svo stöddu, því að ummæli hv. þm. (J. B.) um verðhækkunartollinn og móthaldsmenn hans tek jeg ekki til mín.