10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í C-deild Alþingistíðinda. (2815)

125. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Flm. (Pjetur Ottesen):

Þegar mál þetta, bjargráðasjóðslögin, voru fyrir þinginu 1913, var allmikill skoðanamunur um málið, og sætti nýbreytni þessi þá allmiklum andmælum, þótt svo færi, að það væri samþykt. Enda tók málið stórvægilegum breytingum í meðferð þingsins, frá því sem fyrst var til ætlast.

Auk þess, sem menn deildi mjög á um þörf og nauðsyn þessara laga, á þeim grundvelli, er þau voru reist, voru skoðanir manna mjög skiftar um það, hvort tiltækilegt eða hyggilegt væri að skella slíkum lögum yfir höfuð þjóðinni, að henni fornspurðri, þar sem um jafnverulegan, og fyrir fátæk hreppsfjelög tilfinnanlegan, útgjaldaauka er að ræða. Lög þessi vöktu þegar í upphafi víða allmikla óánægju meðal þjóðarinnar, og lifir allmikið í þeim kolum enn.

Það, sem mönnum meðal annars þykir óviðfeldið og geta ekki fallist á að sje rjettmætt, er að það sje betur að verið eða hyggilegra að safna öllu fje bjargráðasjóðsins á einn stað, til Reykjavikur, en lofa sýslufjelögunum að hafa ráð á að minsta kosti nokkrum hluta þess, til að hrinda áfram ræktun landsins. Engin trygging er betri en sú að eiga vel yrkt og ræktað land, og vera sem allra mest sjálfum sjer nógur af því, er rækta má í landinu sjálfu, og sannast hjer, „að holt er heima hvað“.

Því bendir alt til þess, að heppilegra hefði verið að leggja eitthvað af fjenu í íslenskan „ræktunarbanka“, þ. e. a. s. moldina, jarðveginn, sem, ef vel og rjett er á haldið, er tryggur banki og svarar góðum vöxtum.

En þessu er nú ekki til að dreifa, því að lög og fyrirmæli þessa sjóðs fyrirmuna, að svo sje með fjeð farið, enda skal jeg ekki fjölyrða meir um þessa hlið málsins, heldur snúa mjer að því, eins og það liggur fyrir. Eins og frv. þetta ber með sjer förum við flm. fram á það, að frestað sje fyrst um sinn framkvæmdum þessara laga. Liggja þau rök til þess fyrst og fremst, að af hinu erfiða ástandi þeirra tíma, er nú standa yfir, leiðir það af sjálfu sjer, að rjettmætt sje, og enda sjálfsagt, að ljetta af slíku gjaldi, sem því, er hjer um ræðir, og þá ekki síður þar sem frá upphafi hefir orkað tvímælis um það, hve heppilegt eða nauðsynlegt það sje. Því verður ekki neitað, að þetta bjargráðasjóðsgjald er alltilfinnanlegur gjaldaliður á fátækum hreppsfjelögum, sem lítið gjaldþol hafa, og það undir venjulegum kringumstæðum, hvað þá heldur nú. Menn eiga nú, sem von er, fult í fangi með að inna af hendi þau mörgu beinu og óbeinu gjöld, sem beinlínis verður ekki hjá komist, þótt þessu gjaldi væri ljett af. Það má enn fremur í þessu sambandi benda á það, að ástand það, sem nú er hjer á landi, hefir leitt til þess, að bregða hefir orðið á margan hátt út af venjulegri rás í viðskiftum og starfsemi, svo að hið opinbera hefir að miklu leyti neyðst til að taka bjargráðin í sínar hendur. Jeg finn svo ekki ástæðu til að fara fleirum orðum um þetta að sinni, en vona, að hv. deild taki málinu vel. Jeg vil geta þess, að mjer finst það liggja svo ljóst fyrir, að þess gerist ekki þörf að setja það í nefnd, en þó er jeg því ekki mótfallinn, ef einhver kynni að koma fram með uppástungu um það.