14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í C-deild Alþingistíðinda. (2821)

126. mál, sala þjóðjarðanna Helgustaða og hjáleigunnar Sigmundarhúsa

Flm. (Björn Stefánsson):

Jeg stend að eins upp vegna þess, er hv. 1. þm. S.J4, (Sv. Ó.) sagði, að óþarft væri að taka Sigmundarhús með í frv. þetta. Það er alveg rjett, að ekki þarf sjerstök lög um þá sölu, þótt jörðin hafi óskift land með Helgustöðum. Jeg tók samt Sigmundarhús með inn í frv., af því að mjer fanst óþarfi að vera að skilja það frá Helgustöðum, vegna þess, að það myndi einungis tefja fyrir sölunni og valda óþörfum drætti og fyrirhöfn. Ábúandinn sótti um kaup 1912, en hefir ekki enn fengið svar; sjálfsagt goldið þar Helgustaða, sem stjórnin virðist ekki vilja selja, þótt ástæðulaust og óverjandi sje að neita sölu á þeirri jörð, þegar litið er til annara jarða, sem seldar hafa verið. Hv. ræðumaður (Sv. Ó.) er öðrum kunnugri hvernig til hagar, því að hann er landsdrottinn. Hjer er ekki eftir miklu að sækjast; jörðin hefir verið metin l/3 úr Helgustöðum, en er ekki svo mikils virði, ef þau skifti fara fram, sem fyrirhuguð eru. Sigmundarhúsum og Helgustöðum fylgja óskiftar landsnytjar, en þegar þeim er skift eftir því, sem hjer hefir orðið samkomulag um milli ábúendanna, þá vantar mikið á, að Sigmundarhús sjeu að verðmæti l/3 partur óskiftra jarðanna. Þar er tæplega brúkleg bátalending, og landkostir litlir. Túnið er lítið annað en það, sem núverandi ábúandi hefir ræktað upp úr blautum aur, en hitt skal játað, að utan túns eru móar, sem álitlegri eru til ræktunar en túnið sjálft. Ábúandinn er fátækur og hikar við að leggja í mikinn kostnað á jörðinni, sem hann veit ekki enn, hvort hann eða börn hans fá að njóta. Hann hefir búið á þessu mjög rýra koti, bygt það upp, gert góðar jarðabætur, en hikar nú við að verja því litla fje og kröftum, sem hann á, ef engin trygging er fyrir því, að afkomendur hans njóti góðs af. Ef jörðin væri ekki látin fylgjast með Helgustöðum í þessu frv., yrði að virða hana á ný, og sækja um kaup á ný, með öllum þeim brjefaskriftum, sem því fylgja, og það mundi tefja söluna um heilt ár eða meira. Það vill nú svo vel til, að umboðsmaður á að gefa ítarlega og ábyggilega umsögn um málið, og hann er nú einmilt hjer. Það er því að eins til að flýta fyrir því, að bóndinn fái jörðina, að jeg tók Sigmundarhús upp í frv., því að mjer dettur ekki í hug, að neitt verði í vegi fyrir sölu, úr því að frv. um frestun á sölu þjóðjarða hefir verið felt. Umboðsmaðurinn, sem er kunnugur þarna, hefir ekkert á móti sölunni.

Bóndinn á Helgustöðum hefir búið þar í 9 ár og gert myndarlegar jarðabætur. Jeg kom þangað í vetur á góu, í illu veðri, og þá var hann að vinna að jarðabótum, var með járnkall að pæla upp grjót í túninu, ásamt 3 sonum sínum, þeim elsta 8 eða 9 ára. Þeir tíndu í hrúgur eða báru burt það, sem hann losaði. Verðið á Sigmundarhúsum tel jeg fyllilega nógu hátt með þeirri skiftingu, sem fyrirhuguð er. Jeg man, að þegar umsóknin um kaup lá fyrir 1912 og umboðsmaður gaf álit sitt, þá vildi hann hækka verðið úr 2600 kr. upp í 4000 kr. á báðum jörðunum til samans, en það verð, sem hjer er farið fram á, er 4800 kr., og kalla jeg það allverulega hækkun, og fullyrði, að það sje hærra verð en aðrar landssjóðsjarðir þar eystra hafa verið seldar fyrir.