14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í C-deild Alþingistíðinda. (2823)

126. mál, sala þjóðjarðanna Helgustaða og hjáleigunnar Sigmundarhúsa

Flm. (Björn Stefánsson):

Jeg veit ekki, hvað hæstv. atvinnumálaráðherra hefir meint með því, að frv. kæmi fram í kvöldskugganum. Að minsta kosti ætti honum að vera kunnugt, að það er ekki jeg, sem ræð dagskránni, og jeg hefi ekki tafið umræður hjer. Ef hann hefir átt við, að það kæmi ofseint, þá vil jeg segja honum það, að það kom á lögsettum tíma. Jeg dró að vísu að koma með það þangað til jeg sæi, hvort frv. um frestun á sölu þjóðjarða yrði felt, en jeg gætti þess samt að koma með það í tæka tíð, til að þurfa ekki að eiga það undir miskunn ráðherrans og deildarinnar, hvort það yrði tekið til greina. Hæstv. ráðherra (S. J.) sagði, að orðið misrjetti væri haft fyrir slagorð, en því mótmæli jeg, þegar verðugum og duglegum bónda er neitað um kaup, en samtímis eru seldar miklu líklegri jarðir í nágrenninu. Á aðra hlið fjarðarins eru útróðrarpláss, og þar eru seldar þjóðjarðir, en þessi jörð er svo langt inni í firðinum, að aldrei getur orðið útræði þaðan, nema frá heimilinu, því að þeir, sem á annað borð taka sig upp til að setjast að á vertíðinni nær fiskimiðunum, þeir fara lengra út með firðinum en til þessarar jarðar. Hins vegar er seld jörð, sem er svo nálægt Eskifjarðarkaupstað, að töluverður hluti hennar liggur nú innan takmarka kaupstaðarins. Þessi jörð, Helgastaðir, er svo langt frá Eskifjarðarkaupstað, að engin líkindi eru til, að hann nái nokkurn tíma þangað út; að minsta kosti yrði hann þá að verða jafnoki Lundúna. Mjer finst engin furða, að ábúandanum finnist hann misrjetti beittur, þegar allra álitlegustu jarðir eru seldar hringinn í kringum hann, en honum neitað um kaup. Með þessu frv. er líka fyllilega trygt, að landssjóði verði námunotin hvorki dýr nje erfið.

Önnur ástæðan, sem margir halda fram gegn þjóðjarðasölunni er sú, að ábúendur þurfi ekki að eiga ábúðarjarðir sínar til þess, að þær sjeu vel setnar. Jeg veit, að til eru slíkar undantekningar, og eina er hjer um að ræða, en þær eru fáar, og hart er það, ef á að straffa þá leiguliða, sem reynast öðrum betur, og láta þá gjalda þess, að þeir sitja jarðir sínar vel, og neita þeim um kaup, þegar öðrum er veitt. Eftir þessu ætti sú leiðin að vera heppilegust, til að fá keypt býli sitt, að níða það niður, til að fá sönnun fyrir því, að einkis góðs sje að vænta af leiguliðaábúð. Eins og jeg hefi áður lýst yfir hefi jeg aldrei verið því fylgjandi, að þjóðjarðir væru seldar, en fyrst að það á annað borð er lög, er það vitanlegt, að flestir landssjóðsleiguliðar munu leggja alt kapp á að kaupa jarðir sínar á næstu árum, og þá kalla jeg það misrjetti að halda þessari, þegar aðrar þjóðjarðir eru seldar unnvörpum. Jeg man ekki, hve margar umsóknir liggja í stjórnarráðinu, en þær væru þó fleiri, ef þessi dráttur hefði ekki verið hjá stjórninni, því að menn hafa búist við, að hann táknaði það, að hætta ætti allri þjóðjarðasölu, og því ekki talið ómaksins vert að fara af stað. En nú er önnur raun á orðin. Jeg get fullvissað hv. deild um, að umsóknirnar munu drífa að á næstu árum.

Jeg hefi borið fram frv. um erfðaábúð af því, að jeg álít, að það sje eina leiðin til að draga úr eftirsókn þjóðjarða að bæta kjör leiguliðanna svo, að þeir megi vel við una, en það frv. lítur út fyrir að háttv. landbúnaðarnefnd ætli að svæfa á þessu þingi.