01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í C-deild Alþingistíðinda. (2826)

126. mál, sala þjóðjarðanna Helgustaða og hjáleigunnar Sigmundarhúsa

Björn Stefánsson:

Það hefir verið talað um það, og þingmönnum lagt það til ámælis, að þeir hafi flutt mörg frv. inn á þetta þing, samtals 110 frv. Af þeim hefi jeg flutt eða verið frumkvöðull að þrem. Eitt þeirra var steindrepið með öllum greiddum atkv. gegn 3. Þetta er annað frv., sem ekki blæs heldur byrlega fyrir, en 3. frv. má búast við að landbúnaðarnefndin kyrki í greip sinni, þótt mig furði á því, að minni hlutinn þar skuli ekki knýja frv. fram til umr. Eftir þessari útreið mætti ætla það, að þessi frv. mín væru allra frv. vitlausust, en við það vil jeg alls ekki kannast, en hitt munu afdrif þeirra bera vott um, að jeg geng ekki í milli manna með „agitationum“ og er ófáanlegur til hrossakaupa. Nú veit meiri hluti landbúnaðarnefndar, að fjöldi þjóðjarða hefir verið seldur, sem miklu nauðsynlegra hefði verið að eiga fyrir landssjóð heldur en þessar jarðir. Jeg gat þess við 1. umr., að í þessu máli lægju fyrir ítarleg gögn, bæði frá virðingarmönnum, sýslunefnd og umráðamanni jarðanna, en þegar jeg mintist á við nefndina að kynna sjer þessi skjöl, þá var mjer svarað því, að þess þyrfti ekki, forlög þess væru þegar ráðin. En hverjar eru þá ástæður nefndarinnar ? Hún segir, að nauðsynlegt sje að hafa vatn undanskilið. En einmitt í 2. gr. er ákvæði um það. Jeg skal enn fremur segja hv. nefndarmönnum það, ef þeir vita það ekki áður, að í flestum jörðum þar eystra hefir fundist silfurberg í lækjarfarvegum, svo að það er þar í fjöllunum. Nú hafa jarðir þar verið seldar unnvörpum án þess, að skilyrði hafi verið sett um vatnsafl til notkunar við vinslu náma, sem kynnu að finnast, og enginn vafi er á því, að þær verða flestar seldar á næstu árum, sem eftir eru.

Jeg skal ekki minnast á verðleika ábúandans, því að það gerði jeg við 1. umr. En þótt jeg sje fremur andvígur þjóðjarðasölu, þá kalla jeg það óverjandi misrjetti að selja ekki þessum manni jörðina, fyrst að jarðir eru seldar alt í kringum hann, eins og nefndin hlýtur að vita að verið hefir undanfarið, og þótt hún neiti að reisa skorður við því, að svo verði gert framvegis.

Eftir nefndarálitinu mætti ætla, að hjer væri um heljarmikla námu að ræða, en hjer er ekki svo mikið sem hola niður í jörðina, heldur er silfurbergið tekið úr lækjarfarvegi, og engin mannvirki eru þar önnur en tveir timburkofar vindblásnir.

Það má vera, að frv. verði ekki lengra lífs auðið, en ekki mun jeg samt taka frv. aftur, því að vera má, að jeg geti síðar meir mint hv. nefndarmenn og aðra deildarmenn á afstöðu þeirra til þessa máls.