01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í C-deild Alþingistíðinda. (2827)

126. mál, sala þjóðjarðanna Helgustaða og hjáleigunnar Sigmundarhúsa

Sigurður Sigurðsson:

Með því að jeg man ekki aðstöðu hv. 2. þm. S.-M. (B. St.) gagnvart frv. um frestun þjóðjarðasölu, þá vil jeg beina þeirri fyrirspurn til hans, hvort hann hafi greitt atkvæði móti því. (B. St: Nei!). Ef hann hefir ekki gert það, þá er hann ósamkvæmur sjálfum sjer, með því að flytja þetta frv.

Jeg skal nú ekki andmæla þessu frv. sjerstaklega, enda hygg jeg, að þess þurfi ekki. En þar sem hv. flm. (B. St.) sagðist hafa verið óheppinn með frv. sín, þá er það rjett. Mannfjölgunarfrv. var felt, og þetta frv. er þannig, að það gengur hneyksli næst að flytja það. Í landi þessara jarða er einhver merkasta náma landsins, og auðvitað hlýtur reksturinn að hafa áhrif á ábúð jarðarinnar, og því glapræði að selja hana, en hneyksli að flytja frv.

Út af ásökun hins hv. þm. (B. St.) til landbúnaðarnefndar fyrir það, að hún hefir ekki enn afgreitt erfðaábúðarfrv. það, sem henni var falið á öndverðu þingi, þá skal jeg geta þess, að nefndin hefir haft mörgum aðkallandi málum að sinna. Og það er nú svo um þetta frv., að meiri hluti nefndarinnar getur ekki aðhylst það nje stefnu þess, og veit jeg þá ekki, hvort hv. flm. þess (B. St.) er meiri ánægja að því að fá það afgreitt úr nefndinni með þeirri tillögu, að það verði felt. Jeg held, að nefndin sje í þessu máli samkvæmari sjálfri sjer en hinn hv. þm. (B. St.) virðist vera.