01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í C-deild Alþingistíðinda. (2828)

126. mál, sala þjóðjarðanna Helgustaða og hjáleigunnar Sigmundarhúsa

Frsm. (Einar Árnason):

Jeg get verið stuttorður, með því að hv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefir tekið af mjer ómakið.

Jeg býst ekki við því, að hv. flm. (B. St.) haldi, að frv. gangi nú fram, eða að honum hafi komið það óvart, að landbúnaðarnefnd leggur á móti því, og því var það, að jeg skaut því til hans, hvort hann vildi ekki taka frv. aftur.

Hv. flutnm. (B. St.) mintist á, að nefndin hefði ekki kynt sjer skýrslur um málið. Þetta er alveg rjett. En hjer er um principmál að ræða, og engar skýrslur þurfti, með því að nefndin er þeirrar skoðunar, að eigi beri að aðhyllast frv., sem fara í kringum lög, sem sett hafa verið, og þetta frv. er ekkert annað en krókaleið, sem nefndin vill engan þátt eiga í að innleiða.

En svo að jeg víki aftur að skýrslunum, þá skal jeg geta þess, að hv. flm. (B. St.) kom til mín og bað mig að bíða í nokkra daga að láta prenta nefndarálitið, þangað til hann gæti sýnt mjer skýrslurnar. Jeg lofaði því, og beið í viku, en engar skýrslur komu.

Hinn hv. flm. (B. St.) sagði, að vatnsafl og ýmislegur notkunarrjettur landsins væri undanskilið. En þótt svo sje, þá er oftast svo, að þegar tveir hafa umráð yfir sama hlut, þá verða hagsmunir þeirra fyrir árekstri.

Hinn hv. flm. (B. St.) mintist á verðleika ábúandans. Það er svo langt frá því, að nefndin vilji beita hann nokkurri harðdrægni, enda verður ekki sjeð að hann sje harðdrægni beittur í þessu máli. Ef þessar námur verða reknar, þá getur hann

haft hagnað af námurekstrinum á ýmsan óbeinan hátt, og hann er að engu ver settur en aðrir, sem neitað hefir verið um kaup á ábýlisjörðum þeirra.

Hann sagði enn, hinn hv. flm. (B. St.), að nefndin hefði ekki farið gætilega. Það ætti hún að hafa gert, einmitt að hans dómi, sem lýsir sig andvígan þjóðjarðasölu.