01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í C-deild Alþingistíðinda. (2829)

126. mál, sala þjóðjarðanna Helgustaða og hjáleigunnar Sigmundarhúsa

Björn Stefánsson:

Jeg verð að svara fyrirspurn hv. 2. þm. Árn. (S.S.), fyrst að hann man ekki aðstöðu mína til frv. um frestun þjóðjarðasölu. Jeg greiddi atkv. með frv. stjórnarinnar, og gat þess við 1. umr. þessa máls, að jeg hefði ekki komið fram með þetta frv., ef frestunin næði fram að ganga, en úr því að svo fór ekki, þá sá jeg enga ástæðu til þess að flytja ekki frv., og annað dugði ekki, með því að stjórnin hafði neitað um söluna.

Jeg get vel fyrirgefið hv. 2. þm. Árn. (S. S), þótt hann kalli þetta frv. hneyksli, með því að hann er á móti allri sölu þjóðjarða. En jeg verð þá líka að segja, að það gangi hneyksli næst, hvað hann, fulltrúi landbúnaðarins, gerir lítið að því að styðja hag landbúnaðarins. Hann er með í því að kæfa erfðaábúðarfrv., og frv. hans um ábúð jarða var svo vaxið, að enginn mundi hafa trúað, að komið væri frá landbúnaðarráðunaut; svo óverulegar endurbætur á lögum um ábúð og úttekt jarða felast í því. Frv. var líkast því, sem hefði mátt vænta frá hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.). En það má nú líka segja um þau frv., er hv. 1. þm. Arn. (S. S.) hefir verið einn um, að þau hafa ekki fengið betri útreið en mín, eins og menn sjálfsagt muna.

Hv. frsm. (E. Árna.) hjelt, að mjer mundi aldrei, síst eftir innræti landbúnaðarnefndar, hafa dottið í hug, að frv. yrði samþ. Jú, mjer meir en datt það í

hug, eða hvers vegna var þá ekki þjóðjarðasölunni frestað? Og það er víst, að jarðir hafa verið seldar, sem meiri ástæða væri að halda í en þessar, og jeg geng ekki frá því, að það er misrjetti að neita um sölu þessara jarða, þar sem alt í kring eru seldar jarðir, sem síður skyldi, og landbúnaðarnefndin gerir sitt til þess að ýta undir söluna.

En frv. tek jeg ekki aftur, heldur vil jeg lofa hv. deild að sýna mannskap sinn á því.