09.08.1917
Neðri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í C-deild Alþingistíðinda. (2835)

132. mál, kaup í landaurum

Flm. (Bjarni Jónsson):

Þetta frv. er það sama sem jeg flutti á síðasta þingi hjer í hv. deild. Jeg ætla mjer því ekki að fjölyrða mjög um það að sinni, en vísa í aðalatriðunum til þess, sem jeg sagði þá, og þess, sem jeg síðan hefi tekið fram í öðru máli, sem hjer hefir legið fyrir, en það er, að þessi verðmælir, sem jeg vil láta nota, er sá eini rjetti til að miða við. Menn geta sjálfir gert sjer í hugarlund, hvort ekki sje rjettara að mæla gildi hlutanna, sem við eigum með að fara, við einhvern fastan og ákveðinn verðmæli, sem altaf stendur óhaggaður, eða þá við eitthvað, sem altaf er hvarflandi úr einu í annað, eftir atvikum, sem landsmenn sjálfir hafa ekki vald á. Þó nú að þannig sje reiknað eftir álnum, þá er þar með hvorki farið fram á að hækka nje lækka kaupgjald manna; gamlar reglur þar að lútandi geta staðið alveg eftir sem áður; það er að eins verðmælirinn, sem jeg vil láta breyta.

Af því gæti svo aftur leitt, að krónutalan yrði meiri eða minni, sem mönnum væri goldin, en það fer auðvitað eftir því, hvort peningar stíga eða falla í verði. Þegar jeg fyrst bar þetta frv. fram hjer á þingi síðast, þá lagði jeg það til, að álnarverðið skyldi miðað við það meðalverð, sem hefði verið á alininni síðastliðin 20 ár, en í frv. því, er jeg nú flyt, er þessu breytt á þann veg, að álnarverðið skuli miðað við meðalverð það árið, sem lögin öðluðust gildi. Eftir lauslegum útreikningum kemur þetta undarlega vel heim við þá verðhækkun, sem hefir orðið á nauðsynjavörum, eða lækkun á peningaverði, í síðastliðin ár, en er þó heldur lægra, en alls ekki hærra. Það hlýtur að vera rjett hjá mjer að ákveða, eftir vilja löggjafana, einmitt þegar lögin eru gefin út, hve mikið skuli vera í alin.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meir um þetta nú, en vil mælast til þess við hv. deild, að hún vísi málinu til fjárhagsnefndar. Nefndin er vel mönnum skipuð, og tel jeg eflaust, að hún geti athugað málið betur en jeg hefi getað. Sjerstaklega vildi jeg mælast til, að hún athugaði, hvernig haga skuli samningu á nýrri verðlagsskrá; sú gamla er orðin úrelt, og tíminn vaxinn upp úr henni, ef jeg mætti svo segja; þar stendur ýmislegt, sem ekki á að vera, en annað vantar í staðinn. Jeg álít, að hægra sje fyrir nefndina að fást við þetta, og hefi hugsað mjer, að hagstofan hefði hönd í bagga með og semdi verðlagsskrá, en þá yrði auðvitað að gefa henni heimild til að kveðja sjer til hjálpar aðra þjóna ríkisins, sem henni líst. Jeg vil svo að endingu vona, að lögin fái umbætur í höndum nefndarinnar, því að, eins og jeg tók fram áðan, er hún vel mönnum skipuð, og því vel treystandi til þess.