14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í C-deild Alþingistíðinda. (2845)

136. mál, aðflutningsbann á áfengi

Flm. (Jón Jónsson):

Þetta frv. okkar er komið fram af þeim ástæðum, að við flutningsmenn höfum ekki getað sætt okkur við þá leið, sem þingið hefir valið að fara í þessu áfengismáli. Okkur fanst þetta vera að verða að því æsingamáli í landinu, að full þörf væri á að reyna að finna einhverja leið, sem fær væri til samkomulags.

Jeg vil taka það strax fram, að við berum þetta frv. fram í fylstu alvöru, af því að við viljum reyna að miðla eitthvað málum í þessu mikla deilumáli, því að það er áreiðanlega ekki holt, síst á þessum tímum, að stofna til stórvandræða í landinu, sökum flokkadrátta út af þessu máli, eins og nú lítur út fyrir að ætti að verða.

Menn hafa nú sjeð, hvaða stefnu við höfum valið, sem sje að leyfa aðflutning á veikari vínum, en útiloka sterkari drykki. Þegar við fluttum frv. þá var okkur ekki vei ljóst, hve mörg „prósent“ væru í hverri tegund fyrir sig, og því hefi jeg komið fram með brtt. við frv. okkar, á þgskj. 278, og legg þar til, að prósentutalan verði hækkuð töluvert frá því, sem við lögðum til upphaflega. Jeg hefi gert þetta eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið síðan frv. okkar var útbýtt. — Jeg hefi nú hjer nokkur sýnishorn, þótt ekki sje nema á pappírnum, af því, hve mörg prósent af áfengi eru í þeim vínum, sem leyfður er innflutningur á samkvæmt þessu frv., og skal jeg leyfa mjer að láta hv. deild heyra það. það er þá fyrst:

Portvín .... 22—23%

Sherry .... 15-22.

Madeira. . . . 16—20—

Malaga .... 12—16—

Rauðvín . . . 9—14—

Rinskvín . . . 9 — 13—

Badisk vín . . 9—12—

Ungversk vín . 9—11—

Mosel 7-10-

Franskvín . . 6—11—

Kampavín . . 8—12—

Cider 5-7 –

Tollfrjálst öl reynist líka altaf hærra en ákveðið er, t. d. 2,70, 2,80, 2,90 til 3%, og því höfum við viljað takmarka leyfi til opinberrar sölu á öli við 2?/5%, stað 21/4%, og vona jeg, að allir sjái, að menn muni verða jafnt fullir eða ófullir fyrir því. Til samanburðar get jeg getið þess, að þeir drykkir, sem við viljum nú hjálpa til að gera landræka, hafa í sjer þetta áfengi, eftir rúmmáli:

Whisky .... 45%

Cognak í flöskum 45—

Brennivín —„— 45-47%%

Romm —„— 45%

Þessir drykkir eru þó eitthvað sterkari í tunnum. Grísk og ítölsk vín koma hjer ekki til greina, því að þau halda sjer hjer ekki og hafa ekki verið keypt. Jeg hygg þó, að allir gætnari bannmenn hljóti að sjá, að hjer er um mikla tilslökun að ræða frá okkar hálfu, sem aldrei höfum verið banni meðmæltir í neinni mynd, og skal það tekið fram, að þessi tilslökun frá okkar hálfu er að eins gerð til þess að reyna að draga úr þeim æsingum, sem farið er að bóla á í landinu. Líka hljóta allir gætnari bannmenn að viðurkenna það, að miklar líkur eru til, að minna yrði drukkið í landinu, ef ekki flyttist inn annað en þessi veikari vín, því að almenningur drekkur ekki þessi vín; til þess eru þau ofdýr.

Jeg skal þá ofurlítið minnast á ástandið, sem bannlögin hafa skapað í þessu landi.

— Það játa allir, jafnvel flm. breytinganna á bannlögunum, sem hjer voru á ferðinni um daginn, að bannlögin eru brotin, og menn vita það einnig, að pukrað er með að selja áfengi, í ekki svo smáum stíl, og að sú sala er ekkert annað en hreinasta okur. Þetta vita allir, og láta það eins og vind um eyrun þjóta, með öðrum orðum, menn hylma yfir með lögbrjótunum. Við vitum það reyndar, að sumir af lögbrjótunum nást, og eru þeir þá sektaðir. Það getur nú auðvitað verið gott og blessað að fá sektir í landssjóðinn, en ekki held jeg, að neinum blandist hugur um það, að betra væri þó að losna alveg við öll málaferli, þras og æsingar, sem af slíku leiða, því að þessi málaferli geta vel leitt til meinsæris, og allir vita, hvað af því getur leitt. Sumir tala líka um að leggja fangelsisvist við brotum á bannlögunum. Það má vera, að sumir felli sig við það, en hitt er þó tvímælalaust æskilegra, að ala menn svo upp, að þeir verði nýtir borgarar, en ekki lögbrjótar. Það má líka benda á það, að ýmsir leggja sjer ýmsa banvæna drykki til munns, og er það ein hryggilegasta afleiðing bannlaganna. Þá má enn benda á það, að bannlögin hafa orðið til þess, að landið hefir mist þann besta tollstofn, sem hugsast gat, og mátti það þó síst á þessum tímum. Þetta var sá tollur, sem sífellt mátti hækka, og hefði hann nú gefið landinu stórfje. Auk alls þessa tjóns, sem landið hefir orðið fyrir vegna bannlaganna, er það, að þau hafa alið upp í mönnum hræsni og yfirdrepsskap. Jeg fullyrði, að það sje fjöldi bannmanna og goodtemplara á þessu landi, sem drekka áfengi, þrátt fyrir það, þótt þeir þykist vera með bannlögunum, og sjá allir, hve heilbrigt slíkt ástand er. Bannlögin hafa þá orðið þess valdandi, að nú er, lögum samkvæmt, helt niður víni, sem þó mætti selja fyrir þúsundir króna, og verður ekki orðum að því eytt, hvílíkur skrílsháttur það er. Og gagnvart öllum þessum ófögnuði stendur svo lögreglan í landinu gersamlega ráðþrota, því að það er orðin almenn reynsla í þessu landi, að ómögulegt sje að gæta bannlaganna.

Það getur nú ekki hjá því farið, að þetta ástand hafi ýmsar ófjelegar afleiðingar í för með sjer, enda leyna þær sjer ekki. Það þekkja allir, að bannlögin eru orðin þess valdandi, að megnar deilur hafa risið upp í landinu, og verð jeg beint að telja það pólitíska siðspilling, að menn skuli skiftast í flokka eftir því, hvar þeir standa í bannmálinu. Þessar deilur eru jafnvel orðnar svo magnaðar, og óánægjan svo mikil, að sumir tala um, að komið geti fyrir, að menn slái sjer saman í flokka, sem hafi það beint fyrir markmið að brjóta bannlögin, og verður þá lögreglan vitanlega í standandi vandræðum og fær ekki við neitt ráðið. Jeg vil nú spyrja hv. þingmenn, hvort þeir áliti, að slíkt ástand muni vera mjög holt. Nei, það vita allir, að bannlögin eru að verða til þess, að almenningur fyrirlíti þingið og virði mörg lög vettugi. Auk alls þessa verður ekki um það deilt, að bannlögin auka óvild og hatur á milli manna. Og jeg skal ekki ábyrgjast, nema að því kunni að reka, fyr eða síðar, að menn, sem kappsfullir eru, á báðar hliðar, kunni að hætta algerlega viðskiftum hvorir við aðra, svo að úr því verði fullur fjandskapur. Og þetta, sem jeg hefi nú lýst, er „gimsteinninn“ sem hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) talaði hjartnæmast um um daginn.

Nei, við þurfum ekki að láta okkur koma til hugar, að algert bann sje framkvæmanlegt á þessu landi. Um þetta ber öllum lögreglustjórum saman, sem haft hafa eftirlitið með lögunum á hendi, og líta á málið með skynsemd og sanngirni, og jeg er ekki í neinni óvissu um það, að afnám bannlaganna er óhjákvæmilegt, svo framarlega sem ekki verður samkomulag um þau. Mjer virðist það því vera einsætt, frá sjónarmiði bannmanna, að reyna þessa miðlun, og sjá, hvort ekki muni hverfa þá freistingin til að brjóta lögin. Bannstefnan er líka mjög skökk stefna í þessu máli. Þetta er ekki heppilegasta leiðin til þess að láta þjóðina hætta við allan drykkjuskap. Það verður enginn betri maður, þótt þeir, sem valdið hafa, meiri hlutinn, kúgi hann til að gera þetta eða hitt. Menn verða ekki góðir nema þeir sjeu aldir upp undir hollum aga, en ekki við þrælsótta. það hvílir því mjög mikil ábyrgð á þeim mönnum, sem nú greiða atkvæði á móti þessu frv., og það skal sannast á sínum tíma, að þjóðin launar þeim eftir verðleikum. — Mjer finst nú að bannmenn ættu bráðum að fara að haga sjer skynsamlega og afla sjer matar og drykkjar eins og siðaðir menn. Enda tel jeg miklar líkur til þess, að gætnari bannmenn muni sætta sig við þetta frv., eins og það liggur hjer fyrir. En þótt jeg vilji engu spá, þá veit jeg það með vissu, að menn sætta sig aldrei til lengdar við það ástand, sem nú er í landinu og jeg hefi nú lýst. Þótt menn haldi nú, að kjósendur sjeu yfirleitt fylgjandi bannlögunum, þá getur rekið svo langt, að menn sannfærist um, að fylgið við bannlögin er ekki eins mikið og margur býst nú við. Menn munu brátt fara að sannfærast um, að ástæðulausar æsingar mega ekki skipta mönnum í flokka og eyðileggja velferðarmál landsins, og síst af öllu má þingið stuðla að því, að svo verði. Þjóðin sannfærist nú altaf betur og betur um það, að löggjafarnir mega ekki nota vald sitt til að beita hana þrælatökum, heldur verða þeir að vera heiðarlegir gagnvart henni. Sjeu þeir það ekki, þá elur það upp í þjóðinni virðingarleysi fyrir lögunum, og auk þess verða menn óánægðir með þau lífskjör, sem þeir verða við að búa; finst vera óverandi í landinu, og flytja sig ef til vill að lokum í burt af því.

Það hefir komið til mála að taka vínið af þeim mönnum, sem nú eiga það lögum samkvæmt. Þetta finst mjer taka út yfir allan þjófabálk. Þessir menn hafa með víninu glatt margan mann, og jeg veit ekki til þess, að það hafi nokkru sinni komið að meini. Og nú vil jeg spyrja þessa hv. þm., sem eru þessu meðmæltir, hvaða hættu þeir álíti stafa af því, að þessir menn fái framvegis að hafa sínar vínbirgðir. Jeg hygg, að þeim verði ógreitt um nokkur skynsamleg svör.

Það er hægt að benda á, að menn lifðu miklu betra lífi, ef þeir hefðu hverskonar ölföng, heldur en ef menn verða að drekka blátt vatn. Nú er verið að tala um mjólkurleysið hjer í Rvík. Það myndi bæta mikið úr mjólkurleysinu, ef menn hefðu gott öl. Það er holt og gæti komið í mjólkur stað. Góð og ljett vín eru einnig holl, enda hafa læknar þau mikið til lækninga. Það er alkunnugt, að þeir, sem eru andvígir bannlögunum, eru mjög gramir yfir því, að löggjöfin skuli banna innflutning á drykkjum, sem getur verið holt að neyta. Það er ekki vegna þess, að drykkirnir sjeu áfengir, að mönnum finst hart að geta ekki náð í þá. Jafnvel þótt menn hefðu enga áfenga drykki, væru þeir ánægðir, ef það væri ekki löggjöfinni að kenna. Það eru afskifti löggjafarinnar, sem mönnum gremjast. Við erum nú svo gerðir, að við viljum ekki láta kúga okkur.

Skýt jeg svo máli mínu til deildarinnar, og vil vekja athygli hennar á, að vert sje að hugsa sig vel um áður en frv. er felt. Væri sumum þm. holt að hugsa til kjósenda sinna; gæti hugsast, að gremju þeirra væri að mæta, þegar heim kemur, ef þm. ganga nú móti þessu máli, en það er sumum, eftir því sem mjer hefir skilist, ekki meir en svo um.

Sting jeg svo upp á því, að málinu verði vísað til allsherjarnefndar.