14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í C-deild Alþingistíðinda. (2847)

136. mál, aðflutningsbann á áfengi

Þorsteinn Jónsson:

Jeg hefði helst kosið, að ekki hefði verið hreyft við bannlögunum á þessu þingi. Bannlögin eru, eins og menn vita, lög í bernsku. Fullkomin bannlög hjer á landi eru að eins 2½, árs gömul. Þótt aðflutningsbannslögin sjeu að nafninu til 3 árum eldri, þá gátu þau ómögulega komið til neinna nota fyr en vínsölubannslögin gengu í gildi. Það má því heita, að þau sjeu óreynd enn þá. Það er ekki fyrir það, að jeg álíti bannlögin gallalaus, að jeg vildi helst, að þeim væri ekki breytt, heldur af því, að jeg lít svo á, að vont sje að vera altaf að breyta lögum. Þótt bannlögin væru samþykt hjer árið 1909, hafa þau altaf átt örðugt uppdráttar í þinginu. Fyrst þegar þau voru samþykt, voru það nokkrir þm., sem ekki sáu sjer annað fært, vegna kjósenda sinna, en að fylgja lögunum, en komu inn í þau fleygum, sem hafa gert það að verkum, að verra er að framfylgja þeim en skyldi. Lögin eru því að ýmsu leyti öðruvísi en ætlast var til í upphafi. En samt er ekki hægt að neita því með nokkurri sanngirni, að bannlögin hafa unnið þjóðinni afarmikið gagn á þessum stutta tíma. Mjer dettur ekki í hug að fullyrða það, að þau hafi alveg girt fyrir drykkjuskap, en þau hafa dregið feikn úr honum. Nú kemur varla fyrir, að maður sjái drukkinn mann í kaupstöðum, en upp til sveita alls ekki.

Hv. 1. þm. N.-M. (J. J.) sagði, að allir vissu, að bannlögin væru brotin, en menn vildu ekki koma því upp um kunningja sína, enda væri það ekki lofsvert. Jeg veit, að hann hefir ekki hugsað þessi orð, því að ef hann hefði gert það, þá hefði hann aldrei leyft sjer að segja þau á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Hins vegar er það ekki rjett, að menn vilji ekki koma upp brotum. Þarf jeg ekki að benda á annað en að þrjú stórbrot hafa komist upp hjer í Reykjavik það sem af er þessu ári. Menn segja, að aðflutningsbannslögin sjeu brotin. En eru það nokkur lög, sem ekki eru brotin? Jeg vil segja, að ef ekki væri hætta á, að einhver lög væru brotin, þá þyrfti alls ekki að setja þau, ef þau væru bann gegn einhverju. Og þegar það nú heyrist jafnvel á löggjafarsamkomu þjóðarinnar, að það sje ljótt að koma upp brotum á lögum, þá er ekki að furða, þótt fyrirlitningin fyrir landslögum aukist. Því hefir verið haldið fram af andbanningum, að bannlögin æsi menn upp gegn landslögum. En þannig er mál með vexti, að ofstækisfullir andbanningar, sem hafa reynt að spilla hugsunarhætti þjóðarinnar með því að prjedika, að ekkert sje athugavert við það að brjóta þessi lög, geta sjálfum sjer um kent. En því fer betur, að meiri hluti þjóðarinnar vill halda lögunum. Ef svo væri ekki, væru þau meir brotin.

Frá fjölda þingmálafunda í vor hafa Alþingi borist óskir um að bæta bannlögin og auka eftirlit með þeim. Hvað var það, sem ýtti þessum áskorunum af stað? Það mun vera áskorun frá nokkrum mönnum um að afnema bannlögin, sem dreift var út um landið. Þessari áskorun hafa menn svarað á þennan hátt. En þær eru teljandi, óskirnar um að afnema bannlögin, sem þinginu hafa borist. Önnur ástæða mun og hafa stuðlað að því, að þjóðin hefir sent Alþingi þessar áskoranir, sem sje sú, að reynt hefir verið að koma því inn hjá þjóðinni, að bannlögin sjeu brotin gífurlega. Þeir, sem hafa trúað þessu, vilja, að ráðin sje bót á því. Má vera, að nokkrir vilji afnema þau af þessari ástæðu, en flestir sjá, að eina rjetta meðalið er að bæta eftirlitið. Sumir vilja auk þess láta bæta lögin sjálf. Frv. það, sem var til umræðu hjer í deildinni um daginn, mega andbanningar því sjálfum sjer um kenna. Þjóðin sjer ekki ástæðu til að afnema lögin, en vill ganga svo frá, að þau komi að fullum notum. Við umræðurnar, sem urðu um þetta mál um daginn, töluðu andbanningar mest, og get jeg ekki stilt mig um að minnast á einstaka atriði úr ræðum þeirra. Hv. 2. þm. Rang. (E. J.) kvað lögin brotin svo stórkostlega, að engan hafi getað órað fyrir slíku þegar lögin voru sett. Það er þess vert að bera þessi ummæli saman við orð sama þm. (E.J.) þegar bannlögin voru samþykt. Þá kvað hann bindindishreyfingar hafa verið alveg áhrifalausar á þessu landi; það væri þrautreynt, og nú dygði ekkert annað en gallhörð bannlög. Svo voru orð hans þá. Nú er þm. kominn að þeirri niðurstöðu, að þau dugi ekki heldur. Vínið komi jafnt inn í landið sem áður og sje jafnþakksamlega þegið.

Hjá þeim manni, sem hann (E.J.) þekkir best, er reynslan líklega sú. Hann telur jafnmikið drukkið nú og um 1880. Jeg man að vísu ekki svo langt, því að þá var jeg ekki fæddur. Flestir andbanningar telja nú bindindisstarfsemina lofsverða og segja, að hún hafi verið búin að draga svo úr vínnautninni, að lítið hafi víns verið neytt þá er bannlögin gengu í gildi. Jeg læt þá um að svara hv. 2. þm. Rang. (E. J.) um drykkjuskap nú og um 1880. Jeg býst ekki við, að þeir sjeu margir hjer, sem haldi því fram, að ekki sje minna drukkið nú en áður en sölubannið gekk í gildi. Áður gat maður ekki gengið svo um göturnar hjer í Reykjavik, að maður ræki sig ekki á marga menn drukna. Nú sjest varla nokkur maður ölvaður. Síðan jeg kom til bæjarins núna hefi jeg ekki sjeð nema einn. Það þarf engan að undra, þótt þeir, sem upphaflega voru á móti bannlögunum, telji þau nú svo brotin, að þau sjeu óhafandi. Þeir hafa altaf verið leita að ráðum, fyrst til að koma í veg fyrir, að lögin væru samþ., en svo til að fá þau afnumin. Einu sinni var því haldið fram hjer í þinginu, að þau myndu eyðileggja Spánarmarkað fyrir íslenskan fisk, að konungurinn myndi ekki fást til að samþykkja þau, að þau myndu komi í veg fyrir ferðir útlendinga hingað, þau þættu skrælingjamark á þjóðinni, þau væru óhæfileg frelsisskerðing o. s. frv. En reynslan varð sú, að konungurinn undirskrifaði þau og lýsti ánægju sinni yfir þeim. Spánverjar átu saltfisk vorn eftir sem áður og skiftu sjer ekkert af bannlögunum, engir útlendingar ygldust við þeim, og bannlagahreyfingin vinnur sjer sí og æ meira og meira fylgi út um hinn mentaða heim, og vjer höfum haft sæmd af lögunum, en ekki vansæmd.

Hv. 1. þm. N.-M. (J.J.) sagði, þá er bannlögin voru rædd á dögunum, að því meir, sem væri hert á þeim, því meiri yrði óánægjan með þau úti um land. Jeg játa það, að svo muni vera um hann og hans fylgismenn. Þeim þykir alt það verra, sem gert er lögunum til bóta; það eykur þeim ótta fyrir því, að lögunum aukist fylgi. Hann sagði og, að það væri óhæft, að gera bannlögin að almennu deilumáli í landinu. En hví gera andbanningar það þá ? En ef málið er mikilsvert, og það er svo frá mínu sjónarmiði, þá er það þess fullkomlega vert, að barátta sje hafin um það í landinu. 1. þm. N.-M. (J. J.) og 2. þm. Rang. (E. J.) vildu koma á samvinnufjelagsskap milli bannmanna og andbanninga í bannmálinu; þeir vildu gera einhvern bræðing, sem mátulegt væri í af góðri lykt og bragði. Nú mega menn sjá, í hverju þessi bræðingur er fólginn.

Hv. flm. (J. J.) hjelt því fram í framsöguræðu sinni, að sjálfsagt væri að leyfa innflutning á hinum veikari vínum, sem hann svo taldi upp, en banna aftur innflutning og neyslu hinna sterkari drykkja. En nú vil jeg spyrja hv. þm. (J.J.), hvernig ætti að vera mögulegt að halda þessi lög, þar sem á annað borð er leyft að neyta vína? Því að hver ætti að hafa eftirlit með og rannsaka, hvort vínandi í því, sem drukkið væri, næmi meiru en 12%, eins og áskilið er í frv. Jeg hygg, að það muni verða æði erfitt, en finst hins vegar, að margt bendi til þess, eins og jeg líka hefi heyrt, að þetta muni vera fyrsta skrefið til þess að afnema bannlögin alveg. Enda mundu langtum fleiri menn vilja fara heldur þá leið en þessa. En gaman er að athuga, hvað hv. 1. þm. N.-M. (J. J.) sætti sig lengi við 12% vínið. 1—2 dögum eftir að frv. hans og hv. þm. S.-Þ. {P.J.) var lagt fram komst hann (J.J.) að þeirri niðurstöðu, að hámarkið af vínanda í því, sem leyft væri að drekka, 12%, væri altof lágt, og hækkaði það um hvorki meira nje minna en næstum helming, eða upp í 22%. Fyr má nú vera forsjálnin! Ein af ástæðunum, sem hv. flm. (J.J.) færði fyrir því, að samþ. ætti þetta frv., var sú, að ef það næði fram að ganga, þá mundi miklu minna verða drukkið af þeim skaðsemdadrykkjum, sem menn nú leggja sjer til munns, t d. „kogesprit“. En jeg vil leyfa mjer að spyrja hv. þm. (J. J.), heldur hann, að nokkur myndi neyta þess óþverra, ef hann hefði ekki áður vanið sig á hin veikari vín? Jeg get með góðri samvisku beint þessari spurningu til hv. flm. (J. J.), því að hann þekkir miklu betur til áfengis heldur en jeg. — Jeg skal svo ekki fjölyrða mikið um þetta, en vil bæta því við, að mjer þykir miður, að þetta frv. skuli nokkurn tíma hafa komið fram, ekki svo mikið málsins vegna, heldur mannanna, sem flytja það. Hv. samþingismaður minn (J.J.) hafði orð á því, að þingið hefði gert sig að athlægi fyrir þjóðinni með bannlögunum. Jeg á ómögulegt með að skilja, að hv. þm. (J. J.) meini það, að þingið hafi gert sig að athlægi með að búa til lög, sem meiri hluti þjóðarinnar hafði lýst yfir, að hún væri samþykk.

Að mínum dómi gerði hv. deild rjettast í að fella þetta frv. nú þegar frá 2 umr.; mjer finst það ekki eiga betra skilið. Mjer þykir það æði djarft spilað, að ætla sjer að eyðileggja bannlögin nú, einmitt á þeim tímum, þar sem hreyfing í þessa átt fer óðum vaxandi víða úti um hinn mentaða heim.

Jeg legg ekki lítið upp úr því, ef svo færi seinna meir, að hún ryddi sjer til rúms meðal annara þjóða, að geta þá litið aftur til þess, að við Íslendingar hefðum verið einna fyrstir til að semja og halda lög, sem væru á undan tímanum.

— Jeg ætla að endingu að taka það fram, að mjer hefði þótt flm. (J. J.) sæmra að fara fram á að afnema bannlögin með öllu, því að annaðhvort er að hafa algert bann eða ekkert.