14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í C-deild Alþingistíðinda. (2849)

136. mál, aðflutningsbann á áfengi

Einar Jónsson:

Mjer þykir dálítið leiðinlegt að þurfa að byrja mál mitt á að lýsa yfir því, sem öllum er kunnugt, að þegar bannlögin voru samþykt á þingi 1909, þá var það þing svo óheppið að eiga ekki annan eins mann og háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.). Jeg býst við að engan furði á, þótt talað sje af dálítilli tilfinningu í þessu máli, og jeg fyrir mitt leyti get fyrirgefið hverjum, sem stendur dálítið stífur fyrir, þegar um þetta er að ræða. Jeg hygg, að háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) hafi ekki athugað nægilega, hvernig á stóð, þegar bannlögin voru samþykt 1909. Þá var að mínum dómi ekki rjett að farið, Þjóðin var að vísu látin greiða atkvæði um, hvort hún vildi hafa bann eða ekki, en henni var ekki skýrt frá, hvernig þessi lög ættu að vera, og hún fjekk ekki að greiða atkvæði um sjálf lögin, einsog þau komu frá þinginu. Jeg hefi áður lýst yfir því, að jeg var þá hlyntur lögunum, í þeirri von, að þau yrðu betur haldin en raun hefir á orðið. Og jeg skammast mín ekki fyrir að segja, að jeg er kominn á aðra skoðun nú, eins og málinu horfir við, þar sem þau eru svo hörmulega brotin.

Mjer leiðist altaf að sjá menn svíkja loforð sin, og það getur enginn fært mjer sönnur á það, að þessi lög verði ekki meir brotin á „normal“-tímum en nú á sjer stað, því að, eins og öllum er kunnugt, eru skipakomur að miklum mun fátíðari en eðlilegt er, og því geta menn ekki fengið eins mikið áfengi og þeir óska og þeir annars mundu geta, ef skipaferðir væru tíðari, Það ætti því engan að furða á, þótt dálítið hlje kunni að vera á brotunum nú, en jeg er viss um, að jeg á eftir að lifa þann dag að sjá þau fara mikið í vöxt, að stríðinu loknu. — Það er margt fleira, sem kemur til greina í þessu máli. Það er t. d. fyrir löngu sannað mál, að þeir, sem vilja fá áfengi til neyslu, þeir fá það þrátt fyrir þessi lög, því að menn kunna ekki við að láta setja sjer þannig stólinn fyrir dyrnar. Ein afleiðingin af þeim er því sú, að þau venja menn á ólöghlýðni og allskonar önnur afbrot, sjálfum þeim til tjóns. Hjer liggja fyrir þessu þingi 3 frv. um þetta mál, en þótt þau næðu öll fram að ganga, væri ekkert þeirra til bóta. Jeg vil svo með leyfi hæstv. forseta, minnast lítils háttar á þau, hvort í sínu lagi. Jeg skal játa, að frv. hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) er í sjálfu sjer ekki til meins, því að ef fara ætti að veita fje til aukins eftirlits með lögunum, væri það að mínu áliti sama og að kasta peningum í sjóinn, Það gilti einu, hvort það væru heldur 10 þús. kr. eða 100 þús. kr., því að bannlagabrjótar væru ekki svo vitlausir að sigla með fult skip af áfengi inn í þá vík, þar sem maður stæði fyrir til að grípa þá glóðvolga. Það eru sannarlega nógar aðrar víkur hjer á landi, þar sem þeir gætu lent óáreittir með feng sinn. Að þessu leyti er þetta frv. skynsamlegt, að það fer ekki fram á að kasta peningum til þess, sem er bláber heimska.

Þá kem jeg að frv. þeirra háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) o. fl., sem er vitlausara en alt, sem vitlaust er, og minnist jeg ekki að hafa sjeð aðra eins endileysu áður. Það er verra en svo, að það taki nokkru tali. Jeg vil því ekki fara að benda hv.

flm. (J.B.) á stærstu vitleysurnar í því, ef ske kynni, að þeir fyndu upp á að breyta þeim, mjer til bölvunar. Þetta frv., sem hjer liggur nú fyrir til umr. fyrir háttv. deild, ber af hinum báðum, bæði að gæðum og sanngirni. Jeg fæ ekki skilið, að nokkur goodtemplari sje svo stækur, sem hefir sjeð, hvernig menn fara að ráði sínu undir þeim lögum, sem nú gilda, að hann geti ekki skilið það, að þegar mönnum væri leyfð drykkja hinna vægari vína, samkvæmt þessu frv., þá mundi afleiðingin verða sú, að menn yrðu skikkanlegir, en ofdrykkjumenn hverfa úr sögunni. Ef þeir geta ekki gripið þetta, þá er ekkert við þá eigandi, en það mun verða til þess, að alt kemst í loft upp, og þá spái jeg, að einhver kreppi hnefann áður en lýkur. Jeg tala nú ekki um ósköpin, ef sú vitleysa ætti nú fram að ganga, sem heimilar, að gengið sje inn á heimili manna og þeirra löglegu eignum rænt. Jeg trúi því ekki, fyr en jeg tek á, að allir Íslendingar sjeu þeir aumingjar, að þeir horfi þegjandi á, að vaðið sje ofan í þeirra hirslur og tekin flaska, sem þeir kunna að eiga frá 1912. Svo að jeg víki nú að öðru, þá vil jeg spyrja, hvernig stendur á því, að lögreglustjórnin brýtur lögin allra manna mest? Jeg veit ekki betur en að það sje skýrt og skorinort bannað í aðflutningsbannslögunum að flytja vín á land En þó hefi jeg með eigin augum sjeð lögreglustjórana veiða áfengi upp úr sjó og flytja hjer á land, og aka því í vagni um göturnar. Hefði jeg haft vald til þess, þá hefði jeg hiklaust stöðvað vagninn og sagt: „Hingað og ekki lengra“. — Þetta, sem jeg hjer hefi skýrt frá, eru stærstu lögbrotin, og þýðir ekkert fyrir menn að þræta fyrir, því að allir vita, að svona er það. Einkum hefir borið mikið á þessu síðan nýi bæjarfógetinn kom til valda. En ef einhver aumingi sjest á götu með dreitil á flösku, þá er rokið upp til handa og fóta, þó að hlaðnir vagnar sjeu látnir óáreittir. Slíkt er með öllu óþolandi athæfi hjá lögreglustjórninni og hlýtur að sannfæra menn um, hve meiningarlaust það er að hafa lög, sem þannig er farið með. Það væri miklu skárra að afnema lögin alveg en að láta líðast, að þeir, sem eiga að gæta þeirra, hafi fyrir mönnum, hvernig þau best verði brotin. Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) kvað það skapa heift og úlfúð að tala um þetta mál, en jeg vil, að menn ræði málið með ró og skynsemi, því að þetta er tilfinningamál, sem fara verður varlega með. Það er ekki að miða við, þótt sumir bannmanna sjeu svo æstir og ofstopafullir, að engu lagi er líkt. T. d. sá jeg það í blaði í vor, að yfirdómari hafði skrifað undir skjal, sem fór fram á afnám bannlaganna. Það verður til þess, að bannmenn krefjast að vita, hvers vegna hann hafi skrifað undir. Þeir hafa jafnvel gengið svo langt, að fara svívirðilegum orðum um fræðslumálastjórann út af engri sök. Þótt þetta sje í alla staði óafsakanlegt framferði, get jeg fyrirgefið þeim það. En ef þeir ætluðu að sækja mig heim og taka frá mjer flösku, sem jeg kynni að eiga, þá skyldi jeg sýna þeim „hvar Davíð keypti ölið“.