04.07.1917
Neðri deild: 2. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

7. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur

Forsætisráðherra (J. M.):

Eins og háttv. þingdm. er kunnugt var hinn 9. des. 1914 sett nefnd til að athuga launa- og eftirlaunamálið. Nefndarálitið er komið út, en hefir víst ekki verið útbýtt enn sem komið er. Þótt í fyrstu muni hafa verið til þess ætlast, að launamálið yrði tekið alt fyrir á þessu þingi, hefir ráðuneytið ekki sjeð sjer fært að leggja fram ákveðnar tillögur í þessu máli, sakir óviss peningaverðs og ýmissa orsaka annara. Það er kunnugt, að skattamálanefndin frá 1907 fór ekki eins langt, áætlaði tekjur hreppstjóra ekki eins háar og launanefndin hefir gert. Ráðuneytið hefir fallist á tillögur launanefndarinnar í þessu efni og því tekið frv. upp. Störfin eru víðast ekki nema aukastörf, en svo illa borguð, að varla má bíða lengur, að bót sje á ráðin. Með þessu frv. hækka launin um helming, og ætti að vera bót í því, þótt þau sjeu enn oflág. Þó bætir það nokkuð úr, að eftir frv. verða aukatekjurnar nokkru sæmilegri en áður. Jeg held, að Alþingi hafi gleymt að færa upp þær aukatekjur, er aukatekjur landssjóðs voru hækkaðar.

Tel jeg svo ekki þurfa að segja fleira um frumv. Vil jeg stinga upp á, að því verði vísað til allsherjarnefndar. Að vísu hefir frv. nokkur útgjöld í för með sjer, en þó tel jeg rjett, að allsherjarnefnd fái málið til meðferðar, með því að jeg býst við, að þessi nefnd eigi að starfa að þeim málum, er snerta lögstjórn.