16.08.1917
Neðri deild: 35. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í C-deild Alþingistíðinda. (2875)

156. mál, samábyrgðin

Benedikt Sveinsson:

Hv. frsm. (Sv. Ó.) hjelt því fram, að þetta „sumt“ í frv., sem hefði ágreiningi valdið, þyrfti ekki að aftra því, að frv. gengi fram í einhverri mynd. En jeg held, að sú lagasmíð yrði mjög af handahófi, ef farið væri að vinsa úr þau atriði, sem meiri hluti deildarinnar gæti komið sjer saman um. Miklu meiri trygging yrði fyrir því, að vel og viturlega yrði frá þessu máli gengið, ef stjórnin fengi ráðrúm til að undirbúa það undir þing með ráðum og aðstoð Fiskifjelagsins og samábyrgðarstjórnarinnar.

Hv. frsm. (Sv. Ó.) sagði, að flokkunin væri auðveld. Kvað hann það fjarstæðu, að vandfengnir myndu menn til þeirra hluta. Skírskotaði hann til laga frá 1905, um flokkun fiskiskipa. En á þau lög hefði hann eigi átt að minnast, því að á framkvæmd þeirra hefir orðið mjög sorgleg reynsla. Jeg vil spyrja hv. þingdeild, hvort sú flokkun hefir ekki verið herfilega misbrúkuð, og hvort ekki hefir beinlínis leitt manntjón af því, að skipin hafa ekki verið skoðuð með nægri nákvæmni, þekking og samviskusemi?

Þetta mál hefir verið gert að blaðamáli, og það með fullum rökum. (M. Ó.: Engum rökum!) Jeg get nefnt eitt dæmi, þegar tvö skip voru dæmd ósjófær hjer í Reykjavik, en síðan var farið með þau í Hafnarfjörð. Þar voru þau skoðuð af öðrum skoðunarmönnum og talin sjófær. Bæði hjeldu svo út til fiskveiða. Annað komst út á miðjan Faxaflóa; þá datt gat á það, og menn fengu með naumindum draslað því í land og borgið svo lífi sínu. Þá var þetta skip nýkomið úr skoðun frá eiðsvörnum mönnum, sem sjálfsagt hafa framkvæmt hana eftir bestu vitund. Hitt skipið fórst með hverju mannsbarni, sem innanborðs var, fyrir sunnan land. Það er því sannarlega sorgleg reynsla fyrir því, hvernig sú skoðun hefir verið af hendi leyst.

Viðvíkjandi skoðun á vjelbátum er sama að segja, og jeg býst við, að ef stjórn Samábyrgðarinnar væri að spurð, teldi hún þá skoðun ekki á marga fiska. Á Seyðisfirði var mótorbátur nýskeð tekinn í ábyrgð af Samábyrgðinni. Þegar hann var kominn út á miðjan fjörð, bilaði vjelin. Segl voru fúin og ekki hægt að notast við þau, og þar eð bátverjar vildu ekki láta sig reka á land, gripu þeir til akkerisins, en þá fór ekki betur en svo, að stjórinn slitnaði; hann var fúinn líka.

Hv. frsm. (Sv. Ó.) kannast við að hafa komist ónákvæmt að orði er hann sagði, að 20% væru dregin frá fyrir grun einn um, að skipstjóri hefði tjóninu valdið. Hann hlýtur að kannast við, að það er rjett, sem í lagagreininni stendur, að það sje vítavert, ef skipstjóri verður valdur að tjóni af ásettu ráði, og geri hann það, er ekki ástæða til að breyta lögunum. Þessu ákvæði hefir, eins og jeg sagði áður, verið að eins tvisvar beitt. Í annað skiftið hafði öll skipshöfnin sofið í bátnum, meðan hann var að reka á land. Sannarlega ætti að komast hjer á ríkara aðhald og eftirlit með gætni og samviskusemi í skipstjórn, en ekki ljetta ábyrgðinni af í því efni. Jeg held, að Samábyrgðin beri fullkomlega nógu mikla ábyrgð ef skip strandar fyrir gáleysi eða vítavert hirðuleysi, því að eftir reglugerð sinni er hún ávalt „skyld til að greiða svo mikið af skaðabótunum, sem þarf til að greiða lán af almannafje, þar með talin lán úr íslenskum bönkum og sparisjóðum, sem veitt hafa verið gegn veði í skipinu eða bátnum, þó eigi meira en ? tryggingarfjárhæðarinnar, og á Samábyrgðin þá endurgjaldskröfu á hendur þeim, sem sekur er“. Hjer ber Samábyrgðin ábyrgðina, og verður svo að eltast við þá ólánsmenn, er sett hafa skipin upp, en það mundi oftast verða árangurslaust. Er því síður en ástæða til að íþyngja Samábyrgðinni um þetta atriði frekar en orðið er.

Háttv. frsm. (Sv. Ó.) sagði, að nauðsynlegt væri að breyta lögunum. Jeg hefi ekki sagt eitt orð í þá átt, að ekki mætti breyta lögunum; meira að segja felur dagskráin, sem jeg ber fram, það í sjer, að ætlast er til, að stjórnin búi undir breytingar á lögunum. Þessi ummæli hv. frsm. (Sv. 6.) eru því alveg út í hött. Hv. frsm. (Sv. Ó.)sagði, að þótt þau fjelög, sem nú endurvátrygðu fyrir „Samábyrgðina“, neituðu um endurtryggingu, ef þetta frv. yrði samþykt, þá væri hægt að semja við önnur. Jeg hygg, að þetta sje alveg rangt, og að minsta kosti ósannað og ósennilegt, því að ef Samábyrgðin fælir nú frá sjer þessi fjelög, þá yrðu það varla meðmæli með henni, og mundi hún eiga undir högg að sækja að fá endurtryggingu hjá öðrum fjelögum. Jeg skal svo ekki orðlengja frekar um þetta að sinni, en vona, að háttv. deild sjái, að eina rjetta leiðin í þessu máli er sú að samþykkja dagskrána.