16.08.1917
Neðri deild: 35. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í C-deild Alþingistíðinda. (2876)

156. mál, samábyrgðin

Matthías Ólafsson:

Það er mikil þekking, sem háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hefir alt í einu fengið á þessu máli, því að jeg veit ekki til, að hann hafi nokkurn tíma áður hugsað um þessi mál.

Hann þykist ekki vita, af hverju þetta frv. sje komið fram. Jeg get sagt honum, að það er af því, að í landinu er orðin almenn óánægja með það, hvernig Samábyrgðin er starfrækt. Fyrst og fremst hefir hún aldrei fengist til að tryggja sjer það, að bátarnir, sem trygðir eru hjá henni, sjeu í notandi ástandi. Hún hefir ætíð færst undan því að gera breytingar á því fyrirkomulagi, sem hefir verið hjá henni, um skoðun á skipum þeim, sem hún vátryggir, og hafi svo skipin farist, þá hefir vátryggingarupphæðin ekki verið greidd nema með eftirtölum og undanfærslu.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) gerði lítið úr flokkuninni, sem frv. fer fram á, og færði fram dæmi því til sönnunar, að lítið mundi á henni að græða. Jeg skal benda háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) á það, að það er svo með fleira en þennan hlut, að menn eru fákunnandi í fyrstu, en reynslan og æfingin þroskar mennina. Annars var þetta dæmi, sem þm. N.-Þ. (B. Sv.) tók, máli sínu til sönnunar, mjög óheppilega valið, því að það gat eins vel bent á vitleysu landsmanna eins og þeirra, sem skipið skoðuðu, því að það, að þilfarið sje mjög sterkt, er ekki það aðalatriði, sem á að ráða því, hvort skipið skuli vera sjófært eða ekki. Hitt er alt annað mál, að það er mjög óheppilegt að fara með skipin úr einum stað í annan, til þess að láta skoða þau, og ákvæði, sem kæmu í veg fyrir slíkt, hefðum við sett inn í þetta frv. ef okkur hefði dottið í hug, að Samábyrgðin fjellist á það.

Að fela stjórninni þetta mál getur aldrei farið betur en svo, að málinu seinki um eitt ár. En hafi nú stjórnin Samábyrgðina fyrir sinn aðalráðunaut í þessu máli, þá, satt að segja, vænti jeg mjer ekki mikils í framkvæmdunum. (B. Sv.: En Fiskifjelagið?). Fiskifjelagið getur engin áhrif haft í þessu máli. Það hefir reynt það áður, en alt strandað á því, að Samábyrgðin hefir ekki viljað ganga inn á neinar skynsamlegar breytingar.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) var að tala um, að ósanngjarnt væri, að eigandi báts fengi hann borgaðan, ef slys hlytist af því, að öll skipshöfnin svæfi í bátnum. Jeg get ekki sjeð annað en að það væri sama sem að hengja bakara fyrir smið að vilja ekki borga bátinn, því að ekki getur eigandinn að því gert, þótt formaðurinn gæti ekki skyldu sinnar. Það væri þá líkast því, að rjett væri að neita að borga háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) vátryggingarfjeð, ef svo vildi til, að annar maður brendi hús hans af hefndargirni eða einhverjum öðrum orsökum. Jeg get ekki sjeð annað en að þetta tal hans sje lokleysa ein. Jeg verð að álíta, að flokkunin á skipunum sje bráðnauðsynleg, en auðvitað er hún vandasöm. En ætti okkur ekki að vera mögulegt að koma henni á, eins og öllum öðrum þjóðum. Ef við ekki gerum það, þá er það áreiðanlegt, að fjelagið er í mestu hættu statt, því að einmitt í flokkuninni er mest tryggingin fyrir fjelagið. En það var einmitt hugsun nefndarinnar að reyna að koma því svo fyrir, að bæði fjelagið og skipaeigendur væru tryggari, hvað sem fyrir kæmi.

Jeg vona, að menn sjái nú, hvoru megin rjettlætið og skynsemin eru í þessu máli, og láti frv. ganga fram.