16.08.1917
Neðri deild: 35. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í C-deild Alþingistíðinda. (2880)

156. mál, samábyrgðin

Matthías Ólafsson:

Á þingi 1915 voru samþykt lög lík þessu, þar sem ætlast var til endurtryggingar; að vísu átti að samþykkja þau, hvort sem endurtrygging fengist eða ekki. Þá voru miklar hrakspár um það, að slík endurtrygging fengist ekki, en þær urðu að engu.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) telur ekki leyfilegt að breyta þessum lögum án þess að leita samþykkis endurvátryggjanda. Eftir því ætti ekki einu sinni að mega samþykkja lög, sem bættu kosti endurvátryggjanda. Ef þingið kemst að þeirri niðurstöðu, að endurtrygging sje jafntrygg eftir sem áður, hvernig ætti þá endurtryggjandi að draga sig í hlje? Og ekki hefir verið sýnt fram á, að honum sje meiri bætta búin með frv. en áður. Tryggingin liggur í flokkuninni, og sú tortrygni, sem bólað hefir á hjer við umræðurnar, er blátt áfram hlægileg. Það er kynleg kenning, að ekki sje hægt að fá sæmilega matsmenn til þessa hjer á landi, og jafnvel, eins og hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) gaf í skyn, að aldrei verði hægt að fá þá. Eins og þingið bæði nú og áður hefir oftsinnis ákveðið, að mat skuli fara fram um hitt og þetta, þá er það undarlegt að gera ráð fyrir því, að engir matsmenn verði hæfir til þessa starfs. Auðvitað fást slíkir menn ekki nema með æfingunni. En ef mönnum sýnist svo, þá má senda menn til útlanda til þess beinlínis að læra að meta skip; þá mundi flokkunin fara fram svo, að örugt væri.

Þess utan er gert ráð fyrir, að landsjóður haldi áfram að borga, með því að lögin gera honum skylt að borga tap, sem hlýst af handvömm eða jafnvel glæp skipstjóra. Það er satt, að Samábyrgðin ræður ekki skipstjórana, en svo er heldur ekki í öðrum löndum, en reglur eru um það, að skipstjórar, sem vegna hirðuleysis missa skip sin, fá ekki skip aftur fyr en eftir lengri eða skemri tíma eða jafnvel aldrei, eftir atvikum. Í þessu liggur mikil trygging fyrir stofnanirnar; ef skipstjórum er hægt að kenna um slysin, þá er venjulega hirðuleysi um að ræða. Annað mál er það, ef útgerð hefir keypt skipstjóra til að týna skipinu; þá eru hvorir tveggja orðnir glæpamenn.

Jeg álít það eiga mjög illa við að þylja nú enn, í 3. sinn á þessu þingi, söguna um skútuna í Hafnarfirði. Það er eins og menn vilji gera hjer úr visvitandi glæp, sem leitt hafi af manntjón. Jeg get leitt fram mann, sem var skipstjóri á þessu skipi árið áður en slysið varð, og hann hefir sagt mjer, að skipið hafi verið eitt hið besta við Faxaflóa. Heimildarmaður minn gaf mjer leyfi til að nafngreina sig, ef jeg vildi, og er hann Kristinn Brynjólfsson frá Engey. Jeg skal geta þess, að hann sagði mjer þetta áður en slysið varð, og ekkert gat honum gengið til; ekki ætlaði jeg að kaupa skipið. Jeg held, að best sje að tala sem minst um andann, sem þá var á móti eiganda skipsins, versluninni Edinborg, og miður gætilegt hygg jeg vera að fara eftir blaðafleipri um málið. Vjer vitum allir, hvernig blöðin eru hjer á Íslandi. — En ef ekki er hægt að nota menn Samábyrgðarinnar til að flokka skip, hvernig má þá treysta skoðun þeirra? Skoðunin er þá nokkurskonar flokkun.

Jeg get ekki enn sagt um, hvort heppilegt muni að skjóta málinu til stjórnarinnar; jeg þykist vita, að hún muni athuga það vel, en býst við, að hún mundi fara mikið eftir tillögum hinnar værukæru stjórnar Samábyrgðarinnar.