25.08.1917
Neðri deild: 43. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í C-deild Alþingistíðinda. (2892)

163. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Matthías Ólafsson:

Jeg get ekki neitað því, að mjer þykir mjög leitt, að þetta frv. skuli vera komið fram hjer í deildinni. Ekki af því, að jeg sje ekki yfirleitt hlyntari útflutningstollum heldur en aðflutningstollum. Útflutningstollarnir koma niður á þeim, sem eitthvað framleiða, og þeir hafa þó altaf eitthvað handa á milli, en aðflutningstollar koma eins mikið niður á fátæklingum, og mest á ómagamönnum, sem flesta hafa fram að færa. Útflutningstollarnir eru því eðlilegri. En þegar á að fara að leggja skatta á eina atvinnugrein, þá er eitthvað bogið við það. Og þetta á nú einmitt að gera, eftir þessu frv. Það er eftirtektarvert, að aðalástæðan fyrir frv. er það, að ábúðar- og lausafjárskattur hafi hækkað. Það er rjett, að hann hefir hækkað úr 50000 upp í 75000 kr. En hvað eru 75000 kr. sem aðalútgjöld landbúnaðarins? Hann má vera hörmulega staddur, ef hann munar nokkurn hlut um þessa hækkun. — í fjárlagafrv. stjórnarinnar er gert ráð fyrir, að ábúðar- og lausafjárskattur verði 75000 kr., en útflutningsgjöld af sjávarafurðum 220000, en öll útflutningsgjöld 374000 kr. Ef þetta er tvöfaldað, þá verða beinar álögur á sjávarútveginn 440000 kr., og er það miklu meira en honum getur borið að greiða, í samanburði við aðrar atvinnugreinar. — Þetta er svo mikið ósamræmi, að það hlýtur að liggja í augum uppi, enda sýndi það sig, að einn sanngjarn maður úr bændastjettinni hefir þegar kvatt sjer hljóðs til að lýsa því yfir, að honum þætti þetta ótækt. Hann er nýsestur niður, svo að mönnum er í fersku minni, hvernig hann leit á málið, frá sjónarmiði bændanna.

Jeg skil ekki í, að flutningsmenn fái neitt þakklæti hjá kjósendum sínum fyrir þetta frv. Þá er eitthvað breytt orðið blóðið í hinum gömlu höldum, ef þeir vilja losa sig við rjettmæt gjöld til landssjóðs og koma þeim yfir á aðra. Jeg held, að þeir vilji miklu frekar sýna gamla íslenska rausn og greiða umyrðalaust sinn hluta af þeim útgjöldum, sem nauðsynleg eru til almenningsþarfa. það væri miklu þarfara að ala upp þann hugsunarhátt hjá bændum, ef hann er farinn að dofna, heldur en að telja þeim trú um hið gagnstæða. Það væri ekki vansalaust af þinginu, ef það samþykti þetta frv., og helst ætti ekki að auka kostnað með því að vera að ræða það. — Það hefir verið borið saman við verðhækkunartollsfrv., en þar er alt öðru máli að gegna. Verðhækkunartollurinn átti að koma niður á óverðskulduðum gróða, sem ekki væri fenginn að tilhlutun mannanna sjálfra, og hann átti að leggja á allar atvinnugreinar jafnt. Ef sett hefði verið hæfilegt lágmark á tollskylt verð vörunnar, þá hefði ekki munað svo mikið um það gjald. En ef ætti að fara að eins og stjórnin ætlaðist til í frv. sínu, að setja t. d. lágmarkið á síldartunnu 22 kr., eða að eins 2 kr. hærra en það var sett 1915, þá er blátt áfram ekkert vit í því.

Annars erum við líklega eina þjóðin í heiminum, sem er að baksa við að leggja nýja skatta á í þessu árferði. Allar aðrar þjóðir taka hernaðarlán, til að standast þessa tíma, hvort sem þær eru í ófriðnum eða ekki. Allir gjaldendur standa nú hallari fæti fyrir nýjum álögum heldur en í eðlilegu árferði. Eina rjetta ráðið til að fleyta sjer út úr vandræðunum er að taka lán. Það er heldur engin meining í því, að allur dýrtíðarþunginn hvíli á einni kynslóð. Við erum búnir að búa svo vel í haginn fyrir eftirkomendur okkar; höfum keypt skip, lagt vegi, og gert yfir höfuð að tala miklu meira en eldri kynslóðir. Það er því fyllilega rjettmætt, að við kljúfum vandræðin með lántöku, sem lendir á niðjum okkar, ef við getum ekki klofið þau á annan hátt.