25.08.1917
Neðri deild: 43. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í C-deild Alþingistíðinda. (2893)

163. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefi verið á móti tveim frumvörpum um að hækka tekjur landssjóðs, sem verið hafa til umræðu hjer í deildinni, frv. um stimpilgjald og frv. um tvöföldun póstburðargjaldsins. Aftur mun jeg fylgja þessu frv., sem jeg tel styðjast við fylstu sanngirni. Jeg held, að hjer sje ekki um þá ósanngirni að ræða, sem andmælendur málsins gera svo mikið úr. Það er alveg rjett, sem hv. frsm. (G. Sv.) tók fram, að skatthækkunin er þegar fallin á landbúnaðinn, með hækkuninni á meðalalin. Þótt hækkunin sje ekki komin fram í landsreikningnum, þá stafar það af því, að við höfum ekki fyrir okkur nema landsreikninginn fyrir 1914— 15, en meðalalin hefir aðallega hækkað síðan. Nú er hún orðin hjer um bil tvöfalt hærri en hún var fyrir stríðið, og ábúðar- og lausafjárskattur tvöfaldast þá líka um leið. Útflutningsgjald af fiski og lýsi hefir aftur á móti staðið í stað. Af fiskinum er útflutningsgjaldið, ef mig minnir rjett, 10 aur. af hverjum 100 pd., eða 2 kr. af smálest. Þetta er ekki hátt gjald. Ef það er tvöfaldað, verður það 4 kr. af smálest. Og hvers virði er nú ein smálest af fiski? Að minsta kosti 720—750 kr.; útflutningsgjaldið er þá með hækkuninni ekki nema ca. ½ % af andvirði vörunnar. það virðist því ekki vera neitt fjarri lagi að hækka það dálítið, og jafnvel ekkert djúpt tekið í árinni, þótt það sje tvöfaldað. Um lýsi er dálítið öðru máli að gegna. Þar mun útflutningsgjaldið hafa verið hlutfallslega hærra áður, en nú er verð á lýsi orðið þrefalt við það, sem var fyrir stríðið, og 50 aura tollur af tunnu því smáræði eitt. Það er alveg rjett, að framleiðslukostnaður á þessum vörutegundum hefir vaxið, en útflutningsgjaldið er ekki hærra en svo, að það er alveg hverfandi í samanburði við þær háu tölur, sem útgerðarmenn reikna með. — Aftur á móti munar útflutningsgjald af síld svo miklu, í samanburði við verðið, að það getur orðið tilfinnanlegt.

Jeg er ráðinn í að fylgja frv., þó að jeg sje úr kjördæmi, þar sem allur þorri manna stundar sjávarútveg. Jeg er ekki hræddur um, að útvegsmenn þar um slóðir sjeu svo þröngsýnir, að þeir sjái ekki, að hjá bændum hafa útgjöldin hækkað með hækkaðri meðalalin, og jeg óttast ekki meting milli þeirra og landbænda um þetta. Um þessar tilraunir fjárhagsnefndar til að auka landssjóði tekjur verð jeg að segja, að þær eru miklu staðbetri og álitlegri en hin fyrri frv. Þó að hægt sje að bjarga sjer út úr vandræðunum í bili, með lántökum, þá er sjálfsagt að takmarka þær svo sem hægt er. Þó að útflutningsgjaldið af sjávarafurðum sje 220000 kr. á fjárhagstímabilinu, eða 440000 kr., ef það verður tvöfaldað, þá er sú upphæð hverfandi lítil, í hlutfalli við þær háu tölur, sem reiknað er með í þessari atvinnugrein. Ef nokkur afgangur er á annað borð, þá munar ekki mikið um þetta.