25.08.1917
Neðri deild: 43. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í C-deild Alþingistíðinda. (2900)

163. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Jón Jónsson:

Háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) brýndi það mikið fyrir háttv. deild, að hún væri sjer þess meðvitandi, að það hvíldi mikil ábyrgð á henni, ef hún hafnaði þessu frv., vegna þess, að fjárhagurinn heimtaði, að eitthvað yrði gert. En eins og háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) tók fram þá hefir fjárhagsnefnd komið með ýms frv., sem miða að því að auka tekjurnar. Og það segir sig sjálft, að ekki getum við borið ábyrgð á því, hvernig háttv. Ed. tekur í þessar uppástungur. Jeg get engan veginn sjeð, að við þurfum að leggja okkur sjerlega í líma til að afgreiða þetta mál fljótt, því að ekki vitum við, hvaða meðferð það hlýtur hjá hv. Ed. Mjer finst, að við megum síst afgreiða það svo, að við verðum óánægðir eftir á eða gerum einhverjum rangt til. Það gæti t. d. hæglega farið svo, að háttv. Ed., einhverra. ástæðna vegna, kastaði höndum til málsins, og afgreiddi það í flaustri, og væri þá ver farið, ef illa væri frá málinu gengið hjeðan.

Jeg skal ekki fjölyrða um þetta mál, en vil þó geta þess, að mjer finst ekki rjett það, sem hefir komið fram í umræðum hjer, að miðað sje við það, þótt meðalalin hafi hækkað mikið á síðustu árum, því að það er aðgætandi, að meðalalin er miðuð við gangverðið, og þess hærra sem það er, því meir fá framleiðendur fyrir afurðir sínar. Hins vegar finst mjer rjett það, sem háttv. 1, þm. Skagf. (M. G.) sagði, að miða ætti við verðmæti afurðanna. Og þá kemur sú spurning, hvort fjárhagsnefnd hafi gert það með þennan skatt, sem hjer er um að ræða. Ef svo væri, þá mætti heita undarlegt, að það skuli vera nákvæmlega 100%. Ef gæta á sanngirni í þessu máli, þá ber að athuga nákvæmlega samanburð á verði á landbúnaðarafurðum og sjávarútvegsafurðum, og haga sjer eftir því. — Jeg tel mjög varasamt að stíga þetta spor nú, á þessum tíma. En hins vegar sje jeg ekki, að hv. deild þurfi að bera neinn kinnroða fyrir því, þó að hún afgreiði ekki þetta mál nú þegar, þar sem hún hefir komið með ýms önnur frv., sem ganga í þessa sömu stefnu, að auka tekjurnar.