25.08.1917
Neðri deild: 43. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í C-deild Alþingistíðinda. (2901)

163. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Það er ekki rjett athugað hjá hv. 1. þm. N.-M. (J. J.), að það geti orkað áframhaldandi misrjettis, þó að þessar tillögur nái fram að ganga, ef landbúnaðarafurðir stíga í verði. Hv. þm. gætir ekki að því, að sjávarafurðir hafa líka hækkað og það stórum, þó að útflutningsgjald af þeim hafi staðið í stað. Það er ekki heldur gefinn hlutur, að það hafi verið landbúnaðinum í hag, þó að meðalalinin hafi hækkað, vegna þess, að afurðirnar hafa stigið í verði. Þessi samanburður hjá hv. 1. þm. N.-M. (J. J.) er engan veginn rjettur, vegna þess, að þetta gjald sem hvílir á sjávarafurðum, er miðað við alt annað. Það er sem sje miðað við þungann einan, en ekki við verðið, eða verðhækkunina, enda mundi það fljótt sýna sig, ef útflutningsgjaldið væri lagt á eftir verðinu, að það mundi auka tekjurnar að miklum mun, og fara þá auðvitað nær því, sem er sanngjarnt og rjett, en ekki býst jeg við, að sjávarútvegsmenn þættust betur settir fyrir það.

Jeg var að kvarta um það áðan, að hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) væri ekki viðstaddur, þar sem jeg beindi orðum mínum aðallega að honum. En jeg sje nú, að jeg hefi verið búinn að taka flest af því fram, er jeg ætlaði, og þarf jeg því ekki að ræða þetta frekar. — Að eins vildi jeg benda hv. þm. (M.Ó.) á það, að það er alger misskilningur hjá honum, að verðhækkunartollurinn, sem hann og mintist á, hafi verið æskilegur vegna þess, að með honum væri lagður skattur á gróða eingöngu. Jeg á ilt með að skilja, að hv. þm. (M. Ó.) standi í þessari meiningu, því að þetta er ekki annað en tollur, sem lagður er á allar afurðirnar, eða verðhækkun þeirra, sem út flytjast, hvort sem viðkomandi rekur atvinnu með gróða eða tapi. En með sjerstöku tilliti til þess ástands, sem nú er, þá þykir fjárhagsnefnd ekki æskilegt, að þessi tollur, verðhækkunartollurinn frá 1915, verði framlengdur. Viðvíkjandi því, sem háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.)sagði, þá heyrðist mjer hann komast svo að orði, að þetta gjald mundi koma sjerstaklega hart niður á útfluttri síld. Það er fjarri sanni hjá hv. þm., því að þetta gjald af síldinni, sem frv. gerir ráð fyrir, er þvert á móti lægra heldur en verið hefir nú undir verðhækkunartollinum. Jeg sje, að hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) er enn þá fjarverandi, og átti jeg þó ósögð nokkur orð út af ræðu hans. En jeg get algerlega leitt það hjá mjer, enda var ræða hans að miklu leyti fyrir utan þau takmörk, sem umræður hjer geta haft, og hefir ef til vill ekki verið honum að öllu leyti sjálfráð.