28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í C-deild Alþingistíðinda. (2904)

163. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Jeg hafði ætlað mjer að fjölyrða ekki um þetta mál við þessa umræðu. Það hefir ekkert nýtt komið fram í málinu. Ummæli hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) breyta engu um þetta. Það er tala um kunnugt, að útgerð er nú dýrari en verið hefir. Það er ekki vegna þess, að fjárhagsnefnd hafi verið ókunnugt um það, er hún kom fram með þetta frv. Spursmálið er, hvort þessi hækkun á útflutningsgjaldinu sje svo tilfinnanleg, að til mála komi, að menn hætti útgerðinni hennar vegna. Það er mál manna, að útflutningsgjaldið hafi verið sjerlega lágt hingað til, ekki síst þar sem þessir framleiðendur hafa fengið gott verð fyrir vöru sína. Hjer er ekki verið að fremja neitt ranglæti, því að lækkuninni á útflutningsgjaldi af sjávarafurðum er ætlað að koma á móti hækkuninni, sem orðið hefir á ábúðar- og lausafjárskatti, sem á landbændum hvílir. Meðalalin hefir nú hækkað um helming frá því, sem var þegar ábúðar- og lausafjárskatturinn var ákveðinn. Skömmu síðar var útflutningsgjald á sjávarafurðum ákveðið með tilliti til þess, að það yrði jafnhátt tiltölulega og skattarnir á hinum atvinnuvegunum. Síðan hefir það staðið í stað, með örfáum undantekningum. Nú um stundir eru landbændur því ver settir, en líkt mun á komið með báðum stjettunum, ef hækkunin, sem farið er fram á í frv., nær fram að ganga.

Annað mál er það, hvort sjávarútvegurinn sje nú svo illa staddur, að ekki megi á hann leggja. Það var helst á hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) og útreikningum hans að skilja, að í raun og veru ætti að ljetta af honum gjöldum, eða jafnvel gefa með honum. En þá er illa komið fyrir sjávarútveginum, ef hann þolir ekki þennan litla gjaldauka.