28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í C-deild Alþingistíðinda. (2905)

163. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Matthías Ólafsson:

Af því að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hefir enn einu sinni komið með þá fjarstæðu, að þessi hækkun eigi að koma á móti hækkuninni, sem orðið hefir á ábúðar- og lausafjárskatti, þá verð jeg að segja nokkur orð. Það er leitt að þurfa allaf að vera að reyna að berja jafneinfalt mál inn í höfuðið á þm. (G. Sv.), og það, að það er ekki nema gott fyrir bændur, að meðalalinin hefir hækkað. Það sýnir, að afurðir þeirra hafa hækkað stórum í verði. Þó að menn vilji nú koma þessu gjaldi á, þá ættu þeir þó að vera svo hreinskilnir, að láta ekki sem það sje gert af þessari ástæðu. Ef athugað er, hvað landbúnaður og sjávarútvegur gjalda í landssjóð, þá sjest fljótt, að það er ekki saman berandi. Enda þótt jeg hefði sagt, að lækka ætti gjöld á sjávarútveginum, þá hefði það ekki verið nein óhæfa. Því að ef draga verður úr honum, og aðflutningarnir, og þar af leiðandi tollarnir, minka, þá hygg jeg, að þröngt gæti orðið í búi hjá mörgum búkarlinum. Þá er hætt við, að færri vegarspottar yrðu lagðir. Það væri því búhnykkur að afnema álögur á sjávarútvegi, ef það væri skilyrði fyrir, að ekki drægi úr honum.