28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í C-deild Alþingistíðinda. (2909)

163. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Jeg skal að eins geta þess, út af því, er háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) sagði, að það er ekki þakklátt verk að vera í fjárhagsnefnd, enda lítur ekki út fyrir, að sjerlega vel ætli að ganga fyrir hvorki þessari nje öðrum þeim till., sem nefndin hefir komið með, til að reyna að vinna upp að einhverju leyti þann tekjuhalla, sem útlit er fyrir að verði á næsta fjárhagstímabili. Því miður er ekkert útlit fyrir, að þetta muni takast, enda álítur nú bæði þing og stjórn, að til þess verði að taka lán, enda er þessi mikla hækkun á gjöldunum vandræðahækkun, sem stafar af dýrtíð og óáran.

Allar þær till., sem fram hafa komið frá fjárhagsnefndinni, hafa miðað að því að ná í einhverja tekjustofna til að vinna þetta upp, og er þess ekki síður þörf, þar sem víst er, að sumir tekjustofnar falla burt með öllu, svo sem verðhækkunartollurinn. Það þarf ekki að bera fjárhagsnefndinni það á brýn, að hún vilji sjúga út landslýðinn með auknum sköttum, því að þessar tillögur hennar eru að eins tilraun til að ná í dálitlar tekjur, að því er nefndinni virðist á sanngjarnan hátt.

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) vildi halda því fram, að fjárhagsnefndin væri hlutdræg í garð atvinnuveganna, og nefndi sem dæmi því til sönnunar, að hún hefði viljað fella úr gildi verðhækkunartoll á ull. Þetta dæmi var illa valið, en það yrði oflangt mál að fara að gera grein fyrir því nú, og áður hefir verið um það rætt. Í stuttu máli er um það að segja, að það var gert til þess, að búandmenn fengju það fyrir ull sína, sem þeir áttu skilið, því að vitanlega keyptu stórkaupmenn ullina með það fyrir augum, að þeir yrðu að borga af henni verðhækkunartoll, en þeir gátu þó hæglega geymt hana fram yfir 17. sept., eða verða að gera það, og sloppið þannig alveg við að greiða af henni tollinn. Frv. um að nema úr gildi verðhækkunartoll af ull var því borið fram til þess að láta heldur búendur en stórspekúlanta njóta þess verðshluta, sem verðhækkunartollurinn nam. Frv. var borið fram án minstu löngunar til að ráðast á sjávarútveginn, enda hefði það verið heldur lítilfjörleg árás, þar sem sjálfir meðhaldsmenn sjávarútvegarins segja, að ekkert hafi munað um þetta gjald. Það þarf ekki að nefna frv. um hækkun síldartollsins í þessu sambandi, því að það var ekki borið fram af fjárhagsnefnd, heldur einstökum manni, og nefndin ætlar sjer ekki að afgreiða það nú, heldur kýs hún vægari veg, sem sje þann að hækka útflutningsgjaldið ofurlítið, og er því þetta frv. komið fram til þess að miðla málum, en alls ekki til þess að beita misrjetti nje leggja svo mikið á, að ósanngjarnt sje. Það kom hjer líka fram frv. um hækkun vitagjalds, og telur háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) það víst árás á sjávarútveginn, en var nú borið fram af stjórninni, og allir töldu það í hæsta máta rjettmætt, að það gjald væri hækkað. (J. B.: Það snerti ekki landbúnaðinn). Það hefir líka varla verið borið fram af neinum sjerstökum landbúnaðarvináttuhug hjá hæstv. stjórn, ef jeg hefi skilið hana rjett.

Hjer í þessu frv. er ekki farið fram á annað en að leiðrjetta það misrjetti, sem áður hefir átt sjer stað, og rjettlætir það því þetta frv., að það er fram komið til þess, að jöfnuður nokkur mætti verða, og koma í veg fyrir ríg. Þótt sumir sjeu fíknir í verðhækkunartoll, þá er hann alls ekki æskilegur, því að væri hann leiddur í lög, yrði landbúnaðurinn ranglæti beittur, því það er ómögulegt að bera á móti því, að landbúnaðurinn ber hlutfallslega hærri skatta, en sjávarútvegurinn hina sömu og áður. Það misrjetti er að nokkru lagað með þessu frv., verði það að lögum.