29.08.1917
Neðri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í C-deild Alþingistíðinda. (2913)

172. mál, markalög

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Það blæs nú ekki byrlega fyrir þessu frv. eftir byrjuninni að dæma. Jeg skal strax geta þess, að þótt landbúnaðarnefndin beri fram þetta frv., þá er það þó ekki samið af henni, heldur af Pjetri skrifara Zóphóníassyni, en nefndin hefir tekið það til flutnings, með litlum breytingum, af því að hún áleit, að full þörf væri að kveða nánara á um það skipulag, sem er á fjármörkum yfirleitt. Nú er hver maður næstum sjálfráður að marki sínu og getur tekið upp mark, þótt sama mark sje til í sömu sýslu, og jafnvel í næstu sveit. Þetta hefir valdið hinni mestu óreglu og óskilum, sem ljósast sjest á auglýsingum þeim um óskilafje, sem úir og grúir af í Lögbirtingablaðinu. Hefir þetta fje verið selt hjer og þar, ekki í tugum, heldur í hundruðum, eftir að hafa verið hrjáð og hrakið fram og aftur um lengri tíma. Menn hafa lengi sjeð vandkvæðin á þessu, enda hefir Búnaðarfjelag Íslands nú á síðasta fundi sínum skorað á Alþingi að vinna að lagasetningu í þessu efni. Er því full ástæða til þess að gera eitthvað í málinu, því til lagfæringar. Hefir verið stungið upp á ýmsum leiðum í þá átt að ráða bót á þessu, og hafa menn, þótt ótrúlegt sje, einkum hallast að sjerstökum sýslumörkum, hreppamörkum og jafnvel sjerstökum heimilismörkum. En á þessu er sá hængur, að naumast nokkur maður getur þá haldið sínu marki, sem allflestum er þó mjög ant um, sjerstaklega þegar um ættarmörk er að ræða. Fyrir þá sök má telja þá leið ófæra. Þar á móti virðist sú leið, sem farin er í þessu frv., vera sú heppilegasta, sem fram hefir komið, og með henni geta allflestir haldið sínum mörkum. En til þess, að hægt sje að hafa fast skipulag á mörkunum, er lagt til að hafa sjerstakan mann, markvörð, er heldur skrá yfir mörkin og veitir leyfi um upptöku marka.

Og í samræmi við það á engum að vera leyfilegt að taka upp mark nema með samþykki markvarðar. Með þessu móti ætti að vera hægt að fyrirbyggja þann misdrátt, sem á sjer stað vegna sammarka, og öllum kemur saman um að sje mjög bagalegur. Jeg ætla mjer ekki að svo komnu máli að fara út í einstök ákvæði í frv., en vildi að einstaka fram aðalstefnu þess. — Það er gert ráð fyrir því í frv., að markvörður fái 1200 kr. á ári að launum, og getur það að vísu verið álitamál, hvort það sje hæfilega í sakirnar farið. Því að, eins og gefur að skilja, er aðalverkið í fyrstu það, að skrásetja mörkin og leiðbeina um upptöku marka, sem auðvitað verður langtum minna starf, er fram í sækir. En þetta verður óefað mikið verk í fyrstu, og eru launin því alls ekki ofhátt ætluð fyrstu árin, en síðar mætti má ske draga úr þeim, ef mönnum þá sýndist. — Tekjur þær, sem inn mundu koma fyrir skrásetning marka, mundu nema talsverðu fje, því að, eins og menn sjá í frv., þá er gert ráð fyrir, að 1 kr. skuli goldin fyrir að fá mark skrásett, sem nú er skráð í markatöflum sýslnanna, en 2 kr. ef um nýtt mark er að ræða, og ætti það að geta orðið alt að 20—30 þús. kr. fyrst í stað. En síðan færu tekjurnar auðvitað minkandi, þótt þær hyrfu aldrei með öllu.

— Jeg ætla svo ekki að fjölyrða meir um þetta að sinni, enda hafa nú ýmsir beðið um orðið, og er gott að heyra, hvað þeir hafa að segja.