29.08.1917
Neðri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í C-deild Alþingistíðinda. (2914)

172. mál, markalög

Bjarni Jónsson:

Jeg skal ekki gerast margorður um þetta frv., því að það er sjálfsagt ágætt í alla staði, og verður enn ágætara eftir að búið er að vísa því aftur til nefndarinnar, eins og sjálfsagt er að gera. En jeg vil að eins minna nefndina á það, þar sem hún ætlar að vera svo forsjál að setja markvörð, sem á víst um leið að vera „markgreifi“, að þá þarf að vera eitthvað að marka. Hún hefir nú haft frv. frá mjer með höndum lengi, og ekki enn þá þóknast að láta neitt uppi um, hvernig fari fyrir þeim, svo að það er varla að búast við, að jeg taki mikið mark á henni. Enn fremur vildi jeg benda þessari sömu nefnd á það að marka ekki sjálfa sig altof ljóst hjer á þingi.